141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Það er merkur dagur í sögu kvenna og einnig merkur dagur í stjórnmálasögu þjóðarinnar þegar við minnumst þess nú að 90 þar eru liðin frá því að Ingibjörg H. Bjarnason gekk inn í þennan sal og tók hér sæti. Það er vel til fundið hjá forseta Alþingis að heiðra minningu hennar með því að hengja mynd af henni í sal þingsins.

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur — en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega af því, að þær eru konur.“

Virðulegi forseti. Svo mælti Ingibjörg H. Bjarnason skömmu eftir að hún lauk þingmennsku.

Lengi eftir það, árið 1930, stóðum við þó í þeim sporum að rætt var um konur af því að þær voru konur og sumir gera það eflaust enn þá. En Ingibjörg H. Bjarnason leit hins vegar á konur sem einstaklinga og barðist fyrir menntun kvenna. Oft tók hún sér stöðu með menntuninni, þ.e. háskólamenntun í stað þess að berjast fyrir aukinni húsmæðrakennslu kvenna sem var mikið átakamál í þinginu á hennar tíð. Þar stóð hún gegn Jónasi frá Hriflu svo dæmi sé tekið þegar hann vildi byggja upp húsmæðraskóla úti um allt. Hún vildi að konur hefðu jöfn tækifæri til að mennta sig og til áhrifastarfa. Það var hennar grundvallarlífsskoðun og fyrir því barðist hún. Í mínum huga er það merkasta arfleifð Ingibjargar H. Bjarnason að menntun kvenna og jöfn tækifæri kvenna og geta þeirra til að takast á við öll þau verkefni sem karlar höfðu áður gegnt skyldi hlotnast þeim.

Við erum enn þá að berjast fyrir því á Íslandi að ekki sé litið á konur sem konur heldur sem einstaklinga. Því held ég að það sé mjög svo við hæfi að minnast Ingibjargar H. Bjarnason.