141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[15:59]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að taka umræðuna upp. Ísland hefur náð miklum árangri í markaðsmálum ferðaþjónustunnar á undanförnum árum og sérstaklega með átakinu Ísland allt árið, en við hljótum öll að setja spurningarmerki við stöðu innviða í íslenskri ferðaþjónustu.

Við horfum á að náttúruna er helsta aðdráttarafl ferðamanna hingað til lands, 88% þeirra segja náttúruna vera grunnástæðu þess að þeir koma hingað.

En hver er staða náttúrunnar? Eins og hv. þingmaður benti á eru margar viðvörunarbjöllur sem hringja. Íslenska ferðaþjónustan hefur sagt um nokkurra ára skeið: Við stefnum að komu milljón ferðamanna hingað til lands á næstu árum. Ég mundi frekar vilja orða markmið íslenskrar ferðaþjónustu þannig að við ættum að horfa til þess að ná inn milljón krónum af hverjum einum ferðamanni en að stefna að fjölgun þeirra í milljón. Það er skynsamlegra markmið út frá þeim takmörkuðu gæðum sem við höfum upp á að bjóða er kemur að náttúru Íslands. Reynum að ná milljón krónum út úr hverjum ferðamanni frekar en að stefna að milljón ferðamönnum. Mér finnst það líka endurspegla vel þær áherslur sem við eigum að leggja í okkar markaðssetningu.

Aukinheldur vil ég nefna í umræðunni þá hugmynd sem Anna Dóra Sæþórsdóttir hefur nefnt. Hún gengur út á að Íslendingar flokki ferðamannastaði sína þannig að ákveðnir staðir verði með hátt þjónustustig þar sem þeir viðkvæmu staðir geta tekið á móti miklum fjölda ferðamanna, t.d. þegar skemmtiferðaskip koma til landsins, en aðrir staðir verði flokkaðir með lágt þjónustustig. Svo væru kannski tveir eða þrír flokkar þarna á milli. Þannig munu menn halda í óbrúaðar ár á ákveðnum stöðum o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég vil segja að lokum að ég tel íslenska ferðaþjónustu vera á tímamótum. Við horfum fram á gríðarlega fjölgun og það stefnir í mikla fjölgun á næstu árum. Staða náttúrunnar gegnir miklu hlutverki í þeim efnum og þess vegna ber að stíga varlega til jarðar. Við eigum frekar að horfa á aukna verðmætasköpun í greininni, í þeirri grein sem og öðrum atvinnugreinum á Íslandi.