141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Ég ætla að taka fyrir í ræðu minni þau áhrif sem frumvarpið hefur á ríkisútgjöld eða ríkissjóðinn okkar. Manni finnst þó yfirleitt vera þannig að mjög fáir hafi áhyggjur af stöðu hans hvort sem um er að ræða útgjöld eða að tala fyrir því að farið sé varlega í að auka ríkisútgjöldin.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum þýðir það að frá og með næsta ári, þ.e. 1. janúar 2014, munu ríkisútgjöld aukast um tæpar 900 millj. kr. Það fara 900 millj. kr. meira úr ríkissjóði í rekstur Ríkisútvarpsins. Ég staldra við þetta. Ég er eingöngu að tala um forgangsröðun á fjármunum ríkissjóðs. Á sama tíma og þingið er með til meðferðar að auka ríkisútgjöld um 900 millj. kr., einungis til Ríkisútvarpsins, heyrum við í sama fjölmiðli fréttir af bágri stöðu á Landspítalanum, í heilbrigðiskerfinu víða um landið og í löggæslunni. Ég veit eiginlega ekki hvernig maður á að vekja athygli sumra á mikilvægi þess að þeir fari að forgangsraða rétt í ríkisfjármálum. Eða er það kannski þannig, virðulegi forseti, að ástandið verði það alvarlegt, til að mynda í heilbrigðisþjónustunni eða löggæslunni, að það kalli á aukin útgjöld Ríkisútvarpsins til að flytja fréttir af bágri stöðu? Það er kannski veruleikinn sem blasir við.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að frumvarpið mun líka hafa áhrif á þær tekjur sem Ríkisútvarpið hefur náð sér í á auglýsingamarkaði. Það kemur reyndar skýrt fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að gróflega er áætlað að fjárframlög til Ríkisútvarpsins verði helmingi meiri en það sem talið er að muni draga úr tekjum þess.

Nú hef ég engar forsendur til að meta þetta. Það er líka mjög merkilegt að nefndin sem fjallar um málið skuli ekki gera neina tilraun til að fjalla um þennan þátt málsins, þ.e. aukningu á ríkisútgjöldum, í nefndarálitinu. Það er eins og hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi nákvæmlega ekkert fjallað um þann þátt þrátt fyrir að í umsögn sinni til hv. allsherjar- og menntamálanefndar leggist hv. fjárlaganefnd öll gegn því að þetta verði óbreytt að lögum. Engin tilraun, ekki nokkur einasta, er gerð til þess að fjalla um þessar athugasemdir. Ég gerði í 1. umr. um málið mjög alvarlegar athugasemdir við það að á sama tíma og ástandið er eins og það er í heilbrigðismálunum, neyðarástand á Landspítalanum og bág staða löggæslunnar, finnist mönnum ekkert mál að henda 900 millj. kr. í aukinn rekstur Ríkisútvarpsins. Hvers konar endemis vitleysa er þetta? Ég bara leyfi mér að nota það orð.

Ég hefði haldið að hér sæti hæstv. fjármálaráðherra og mundi aldeilis berja í borðið og reyna að stoppa þessa vitleysu af. Nei, eins og venjan er þegar menn tala um eitthvað sem snýr að ríkisútgjöldunum er þingsalurinn nánast tómur, þó svo að hér sitji hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Mjög fáir virðast hafa áhuga á þessu. Ég bara spyr: Á hvaða vegferð erum við? Ég hef verulegar áhyggjur af því. Þegar maður kemur að forgangsatriðum í ríkisfjármálunum geta menn í raun og veru aldrei tekið þá umræðu. Alltaf er farin sú leið, að mínu mati, að henda byrðunum yfir á börnin og barnabörnin. Það er staðreynd málsins. Það er aldrei tekið á vandamálunum, aldrei er tekin rökræða eða umræða um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Það er með ólíkindum að lagt skuli vera til að auka útgjöld ríkisins um 900 millj. kr. sisvona, 27% aukning til Ríkisútvarpsins, á sama tíma og ástandið er eins og það er í heilbrigðismálunum og í löggæslunni. Manni er gersamlega ofboðið.

Síðan er auðvitað merkilegt í þessu samhengi að við í hv. fjárlaganefnd höfum átt góða fundi með breiðum hópi fólks úr stjórnsýslunni og farið yfir mikilvægi þess að setja ný lög um fjárreiður ríkisins og hverju við þurfum að breyta, hvort sem það er í ríkisútgjöldunum eða framkvæmd fjárlaga eða eftirlitshlutverkinu og öllu því til að ná tökum á því stjórnleysi sem ríkir í ríkisfjármálunum. Þar ríkir algert stjórnleysi. Það verður að setja rammafjárlög og inn í rammann þurfa að fara ákveðnir fjármunir. En svo vinnur þingið sjálft og aðrar nefndir þingsins í allt aðra átt. Það er hreint með ólíkindum. Maður spyr sig hvort engin samfella sé í störfum á hv. Alþingi.

Það er líka mjög dapurlegt að þegar skýr gagnrýni kemur fram í umsögn hv. fjárlaganefndar að ekkert tillit skuli vera tekið til hennar. Það er ekki minnst á hana í nefndaráliti meiri hlutans eða hvernig þetta eigi að vera. — Nú gengur hæstv. menntamálaráðherra í salinn og ég fagna komu hennar.

Ég tók eftir því í fréttum í gær eða um helgina að hæstv. menntamálaráðherra, sem er nýr formaður Vinstri grænna og ég óska henni til hamingju með það, sagði þar ákveðnar setningar sem hugnuðust mér mjög vel. Hún varaði við því að menn væru með gylliboð og sagði að það ætti að tala ábyrgt í ríkisfjármálum. Þar er ég algerlega sammála hæstv. ráðherra. En hver eru síðan verkin þegar þau eru skoðuð? Þar fara ekki saman orð og aðgerðir, því miður. Ég spyr mig þeirrar spurningar mun oftar eftir því sem tíminn líður: Erum við í raun og veru að fara beint inn á hina svokölluðu grísku leið? Það er kannski ekki að undra þótt fyrrverandi formaður Vinstri grænna, núverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra, hafi fengið sérstakt tilboð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að fara og stýra þar málum því hann þekkir væntanlega mjög vel til hvernig það er gert.

Af hverju skyldi ég segja þetta? Af hverju skyldi maður hafa þessar áhyggjur og fullyrða að þeir sem nú starfa vinni svona? Ég ætla að nefna tvennt því til rökstuðnings. Í fyrsta lagi sú aukning til Fæðingarorlofssjóðs sem samþykkt var í lok síðasta árs. Þá voru samþykkt lög sem gera það að verkum að á árinu 2013 aukast útgjöldin um 490 millj. kr. Samkvæmt lögunum er áætlað að aukning á ríkisútgjöldum á næsta kjörtímabili verði meiri en 4 milljarðar. Síðan kemur skýrt fram í meðförum nefndarinnar að væntanlega mun þessi tala vera nær 7 ef ekki 8 milljörðum en þeim 4 sem lagt var upp með. Og ég spyr: Á hvaða vegferð erum við?

Síðan ætla ég að nefna annað þessu til rökstuðnings. Þegar farið var í að byggja hús íslenskra fræða, hvað sem okkur finnst nú um þá vitleysu, verður maður að skoða hvernig staðið var að því. Það er ágætt að rifja það upp í þessari umræðu. Tekin er ákvörðun um að byggja hús íslenskra fræða sem kostar 3,7 milljarða. Að mínu viti er alger vitleysa að fara í þá vegferð, algert rugl. Spyrjum okkur að því hvernig staðið er að framkvæmdinni. Hlutur ríkisins eða heildarbyggingarkostnaðurinn er 3,7 milljarðar. Þegar er búið að leggja út í 300 millj. kr. kostnað við hönnun á húsinu og undirbúning verksins. Sá kostnaður var greiddur á árinu 2008. Eftir standa 3,4 milljarðar og sá kostnaður fellur á næstu þrjú ár. Þar er hlutur ríkisins 2,4 milljarðar og hlutur Happdrættis Háskóla Íslands 1 milljarður kr.

Í upphaflegu tillögunum var gert ráð fyrir því að ríkið mundi greiða 1/3 af sínum hluta á hverju ári fyrir sig, sem er auðvitað eðlilegt, og happdrættið 1/3. En hverju var svo breytt í meðförum þingsins? Tillögunum var breytt á þann veg að happdrættið greiðir nánast allan sinn hluta á næsta ári, þ.e. 650 millj. kr., en ríkissjóður greiðir á árinu 2013 150 millj. kr. af þeim 2,4 milljörðum sem hann á að greiða á þremur árum. Á næstu tveimur árum, þ.e. árunum 2014 og 2015, þarf því að auka ríkisútgjöldin um 2 milljarða og 250 millj. kr. Auðvitað er þetta ekkert annað en kosningavíxill fyrir stjórnmálamenn sem samþykkja svona vitleysistillögur. Þá spyr maður auðvitað þeirrar eðlilegu spurningar og við þurfum að spyrja okkur öll að henni: Eiga hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar yfir höfuð að komast upp með svona vinnubrögð? Ég segi nei.

Þarna ætla menn að taka skóflustungur til að baða sig í sviðsljósunum í kosningunum og svo eiga aðrir að sjá um vandamálið. Og það sem verra er og liggur fyrir: Þetta mun lenda á börnunum og barnabörnunum. Síðan koma hingað hæstv. ráðherrar og segja: Við erum búnir að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er ekkert búið að gera það. Það er langur vegur þar frá. Á þessu ári erum við greiða um tæpa 90 milljarða bara í vexti. Á næstu fjórum árum greiðum við um 400 milljarða í vexti.

Ég verð að segja að ekki virðist skipta neinu máli hversu margar ræður eru haldnar hér um mikilvægi þess að sýna ráðdeild í ríkisfjármálum, það er akkúrat ekkert mark tekið á því, bókstaflega ekki neitt. Og þetta þýðir bara að byrðin mun færast inn í framtíðina. Þetta er algerlega óþolandi og ólíðandi.

Setjum þetta í samhengi við það sem ég sagði áðan um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Allir verða að forgangsraða þegar þeir eiga lítið fé, hvort sem það er ríkissjóður, fjölskyldurnar eða fyrirtækin eða einhver annar. Ég hef stundum sagt og get sagt það einu sinni enn: Forgangsröðunin í ríkisfjármálum virðist vera þannig, ef við yfirfærum hana yfir á fjölskyldurnar, að hún er eins og ef foreldrarnir byrjuðu fyrst á því að fara út í búð og kaupa sér áfengi og tóbak og mundu síðan spá í því hvort þeir ættu fyrir mat fyrir börnin. Þannig blasir þetta við mér. Á sama tíma og verið er að auka útgjöld ríkissjóðs um 900 millj. kr. til reksturs Ríkisútvarpsins ríkir neyðarástand á Landspítalanum. Þess vegna set ég forgangsröðunina í þetta samhengi. Eru miklar deilur á milli stjórnmálamanna eða stjórnmálaafla um að forgangsraða til velferðarmála? Nei, það er ekki þannig. Það eru engar deilur, ég hef ekki orðið var við þær. Og ég hef heyrt hæstv. velferðarráðherra koma hingað og segja: Þetta er auðvitað bagalegt. Ríkið tapaði 25% af tekjum sínum. En þegar kemur að einhverjum gæluverkefnum og vitleysum eru alltaf til nógir peningar. Þetta er að mínu viti orðið gersamlega stjórnlaust rugl.

Við getum tekið löggæsluna sem dæmi, síðast í dag var verið að ræða um ástandið þar. Það er mjög alvarlegt ástand í löggæslunni. Erum við að forgangsraða fé þangað? Nei, það er ekki gert. Hefur einhver greining verið unnin af hæstv. ráðherra áður en hann leggur þetta mál fram á því hversu mikil þörf er fyrir þessar breytingar og hversu mikil þörf er fyrir að auka ríkisútgjöldin um alla þessa peninga til Ríkisútvarpsins? Nei, engin slík vinna liggur á bak við þetta. En við fáum fréttir af því daglega, meira að segja í gegnum þann fjölmiðil sem á að auka útgjöldin til, hversu alvarlegt ástandið er til að mynda á Landspítalanum. Það liggja fyrir margar greiningar á því frá fagfólki hvað þarf að gera til að bregðast við. En nei, peningunum er forgangsraðað í þessa átt.

Ég hef ekki heyrt það úr í þessum ræðustól eða annars staðar að deildar meiningar séu um það hverjar séu grunnstoðir samfélagsins sem við viljum verja fyrst og fremst. Það er auðvitað heilbrigðisþjónustan og velferðarmálin, löggæslan o.s.frv. En á sama tíma og við getum ekki sett peninga í það erum við að auka ríkisútgjöldin hér upp á 900 millj. kr. Svo að allrar sanngirni sé gætt er gert ráð fyrir því að verði þetta frumvarp að lögum, sem kallar á tæpar 900 millj. kr. í útgjaldaaukningu, 27% aukningu til Ríkisútvarpsins á einu ári, mun ríkissjóður líka tapa ákveðnum tekjum. Þó eru skiptar skoðanir á því hjá hv. þingmönnum um það hversu háar þær verði. Það er dálítið á flökti hvað þetta þýðir nákvæmlega. En ef maður les það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar er gróflega áætlað að hækkun framlagsins til Ríkisútvarpsins verði helmingi meiri, a.m.k. helmingsaukning.

Málið snýst um þetta, um forgangsröðun ríkisins í fjármálum, ekkert annað. En það er aldrei hægt að koma umræðunni þangað og enginn kemur í andsvör eða ver það af hverju þetta sé gert og hvers vegna sé nauðsynlegt að gera þetta á meðan ástandið í samfélaginu er eins og það er. Þetta er hreint með ólíkindum. Þótt maður segi það kannski meira í gríni en alvöru blasir við að ástandið verði það alvarlegt að auka þurfi útgjöldin til að hægt verði að flytja af því fréttir. Það sem verst er er að alltaf er verið að færa vandamálin yfir á komandi kynslóðir. Það er ekki tekið á þeim. Ég get haldið hér langar og margar ræður um það og hef gert það í gegnum tíðina en einhvern veginn virðist ekkert breytast.

Þegar maður fer yfir það hvernig staðið er að útgjaldaaukningunni þá á að fylgja ákveðnum reglum og lögum þegar frumvörp eru lögð fram. En það er ekkert farið eftir því, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ekkert er farið eftir því hvernig á að meta hvað viðkomandi framkvæmd mun kosta, rekstrarútgjöld ríkissjóðs eða nokkurn skapaðan hlut. Þess vegna segi ég: Þetta er algerlega stjórnlaus vitleysa. Hefði ekki verið nær að skoða og greina hvort þörf sé fyrir alla þá starfsemi sem Ríkisútvarpið er með? Það væri kannski æskilegra að gera það og meta hvort ekki mætti bara skera meira niður heldur en að auka útgjöldin.

Ég verð að segja fyrir mig að ég mundi frekar vilja sleppa við nefskattinn og greiða hann til einhvers annars miðils. Ég mundi ekki sakna neins nema kannski fréttanna, veðurfréttanna, Kastljóssins og Landans. Það mundi ekki trufla mitt daglega líf ef ég missti af öllu öðru. Ég mundi frekar vilja setja hluta af nefskattinum sem á að fara til Ríkisútvarpsins annað, breyta skattinum þannig að meira af honum færi til Landspítalans eða löggæslunnar. En það er auðvitað ekki spurt að því.

Hér er verið að auka útgjöld ríkissjóðs um 900 millj. kr., auðvitað frá og með 1. janúar 2014 þegar ríkisstjórnin er farin frá. Það er alltaf verið að auka inn í framtíðina.

Þetta snýst að mínu viti um forgangsröðun í ríkisfjármálum og hvað við viljum verja. Viljum við verja velferðarkerfið eða viljum við auka umsvif Ríkisútvarpsins? Að mínu viti liggur ekki til grundvallar þessu máli að þörf sé fyrir aukningu. Það geta verið aðrir sem eru annarrar skoðunar en það er mjög dapurlegt þegar hv. stjórnarliðar sem verja þetta mál treysta sér ekki til að koma hingað upp í andsvör og svara þessum athugasemdum og sjá sér ekki fært í meðförum nefndarinnar að setja einu sinni eina línu um útgjöld til Ríkisútvarpsins í nefndarálitið. Þó að það hafi komið hörð og réttlát gagnrýni á þá hluti er ekki ein lína um það.