141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Mig langar að halda aðeins áfram frá því sem var í fyrri ræðu minni um 7. gr. þar sem vikið er að fækkun þeirra mínútna sem Ríkisútvarpið má nota í auglýsingar. Engu að síður er sagt, með leyfi forseta:

„Í merkingu þessa ákvæðis telst eftirfarandi ekki til auglýsinga:

a. Tilkynningar frá Ríkisútvarpinu um myndmiðlunarefni þess og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar.

b. Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.“

Látum vera með b-liðinn en ég er hugsi yfir a-lið í þessari 3. mgr. 7. gr. frumvarpsins þar sem rætt er um kostunartilkynningar vegna þess að við erum jafnframt að tala um að ekki eigi að heimila kostun nema að mjög takmörkuðu leyti.

Svo er talað um tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar. Hvað er frumvarpið að fara hvað þetta varðar? Vart er verið að tala um stóra og mikla sérdagskrárliði sem hugsanlega má kosta því að þeir eru taldir sérstaklega upp. Í ríkissjónvarpinu birtast oft eftir ýmsa þætti, oftar en ekki fasta þætti, leiknar auglýsingar frá ákveðnu bifreiðaumboði hér á landi og fer stærð bílanna væntanlega eftir því hversu mikið áhorfið er talið vera á hvern og einn þátt.

Væntanlega fellur þetta brott en mig langar að biðja hv. þm. Skúla Helgason sem situr hér í salnum — og ég tek undir með Pétri H. Blöndal, það er virðingarvert að framsögumaður þessa frumvarps í allsherjarnefnd sé við umræðuna og reiðubúinn að svara spurningum okkar sem ekki sitjum í allsherjarnefnd og höfum kannski ekki spurt okkar eigin fulltrúa út í hlutina — að líta aðeins á þennan a-lið og hvort þær kostunartilkynningar sem eru í 3. mgr. 7. gr. eigi þá við þessa stóru og miklu atburði sem við erum að tala um að megi kostnaðargreina.

Í nefndaráliti meiri hlutans er á bls. 4 talað um þessa þætti, að fram hafi komið nokkur gagnrýni á ákvæðið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þó kom nokkur gagnrýni kom fram á ákvæðið, m.a. um að bann við kostun mundi hafa það í för með sér að sýnileiki ýmissa íþróttagreina mundi dragast saman og voru þá sérstaklega tekin sem dæmi mót kvenna og yngri iðkenda.“

Reynsla mín af íþróttum barna og barnabarna er sú að oftar en ekki fá drengir í yngri flokkum og karlmenn í eldri flokkum kostunina en síður yngri iðkendur almennt, hvað þá konur, nema þegar um er að ræða þessar stóru deildir eins og N1-deildina í handbolta sem er jafnt handbolti karla og kvenna. Það kann að vera að þarna liggi að baki einhver sérkönnun hvað þetta varðar.

Í seinni hluta ræðu minnar ætla ég að gera 16. gr. að umtalsefni. Þær breytingar sem gerðar eru á henni eru verulega til bóta. Því ber að fagna. Í 4. mgr. er Ríkisútvarpinu heimilað að setja á fót nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu til reynslu í allt að 24 mánuði án þess að þurfa að leita til fjölmiðlanefndar. Tveggja ára reynsla af einhvers konar fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu gæti verið komin til að vera. Þessi ákvæði í 4. mgr. 16. gr. eru verulega skert og ber að fagna því að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar skuli hafa tekið svo kröftuglega á því með því að nú er Ríkisútvarpinu heimilt, að undangenginni tilkynningu til fjölmiðlanefndar, að setja á fót nýja fjölmiðlaþjónustu í allt að 24 mánuði. Ég held að þessi breyting sé mjög af hinu góða því að þar að auki þarf fjölmiðlanefnd að leggja mat á það hvort þau skilyrði sem fram eru sett séu uppfyllt fyrir fyrirhugaða tilraunaþjónustu.

Í frumvarpinu er ýmislegt bætt frá því sem áður var, sérstaklega þetta atriði í 4. mgr. 16. gr. Það er algjörlega skýrt að óheimilt er að nýta reynslutímann til að koma upp umfangsmikilli, nýrri og fullmótaðri hljóð- og myndþjónustu sem fellur undir 1. mgr. 16. gr. eins og stendur í nefndaráliti meiri hlutans.

Ég ítreka að þessi breyting á 16. gr. er verulega til bóta. Það má svo sem líka segja að breyting á 7. gr. frumvarpsins, eins og hún er sett fram, sé verulega til bóta. Þar er dregið úr kostun dagskrárefnis eins og gert er með 1. mgr. 7. gr. sem kemur ný inn. Mér þykir samt ástæða til að óska eftir því við hv. þm. Skúla Helgason að hann fari aðeins yfir a-liðinn í 3. mgr. 7. gr. og útskýri frekar að hverju sú kostunartilkynning sem þar er nefnd lýtur, hvort þar er átt við nýju málsgreinina sem kemur inn á eftir 1. mgr. eða hvort átt er við eitthvað annað.

Virðulegur forseti. Ég ítreka að sú breyting sem meiri hluti allsherjarnefndar hefur gert á 16. gr. er til bóta. Ég held að þar sé verulega komið til móts við marga þá sem ræddu þá grein og höfðu áhyggjur af að Ríkisútvarpið gæti með einum eða öðrum hætti farið inn á þann markað sem einkasjónvarpsstöðvarnar eru fyrir á og verið þar óáreitt í 24 mánuði. Nú eru settar skýrar skorður þar við og því ber að fagna.