141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er reyndar ákveðinn misskilningur okkar á milli. Ég kallaði fram í að við hefðum farið vel yfir þessa umræðu sem snýst um markaða tekjustofna og muninn á því hvort menn eru almennt fylgjandi því að mörkuðum tekjustofnum verði útrýmt sem meginreglu í ríkisbúskapnum eða hinu að menn vilji standa vörð um sérstakt eðli Ríkisútvarpsins, að það sé mjög viðkvæmt fyrir því að hægt sé að draga verulega úr rekstrartekjum þess með pólitískum ákvörðunum meiri hlutans á þingi á hverjum tíma. Við ræddum það meðal annars hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og sá sem hér stendur fyrr í þessari umræðu.

Þetta eru ekki þær upphæðir sem munu skipta sköpum í ríkisbúskapnum sem hér er verið að tala um að Ríkisútvarpið fái til sín af útvarpsgjaldinu. Ég hef þegar viðrað þær skoðanir að þegar menn eru á annað borð að leggja sérstök gjöld á skattborgarana, sem eru skilgreind sem útvarpsgjald og eiga að vera til þess að Ríkisútvarpið geti sinnt starfi sínu, þá sé ekki eðlilegt að verulegur hluti af þeim fjármunum sé notaður til annarra þarfa. Það er mikilvægt að menn standi vörð um fjárhagslega sjálfstæðið eins og fjárlaganefnd viðurkennir reyndar sjálf í umsögn sem hún hefur sett fram þó að hún sé þeirrar skoðunar að eðlilegra væri að hafa hlutina með óbreyttum hætti.

Ég mun koma að öðrum þáttum í mínu síðara andsvari.