141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

564. mál
[22:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í ræðu minni, og ég veit að hv. þingmaður sem er vel að sér um málið og býr sig alla jafnan vel undir þær umræður sem hann tekur þátt í hefur þegar lesið það í þingsályktunartillögunni, er það til dæmis svo að verið er að skilgreina samræmdar prófunaraðferðir fyrir þær trefjategundir sem eru undir þar. Það hefur náttúrlega ákaflega jákvæð áhrif fyrir þá sem véla um þau mál, eins og ég veit að hv. þingmaður gerir sér grein fyrir.

Sömuleiðis skiptir máli að við erum að innleiða þá tæknilegu reglugerð sem varðar bæði hver heiti textíltrefja verða og sömuleiðis hvernig á að merkja þær. Ég tel það töluvert mikilvægt en hins vegar treysti ég mér ekki til að segja hversu djúprist áhrifin eru. Ég veit það eitt að margir munu varpa öndinni léttar þegar málið er frá.