141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð merkilegt að hlusta á ræður þingmanna í dag, sérstaklega þingmanna Samfylkingarinnar, eftir að öllum landsfundum og flokksþingum flokkanna er lokið. Nú hefur komið í ljós að Samfylkingin hefur algjörlega einangrast í íslensku samfélagi varðandi ESB-umsóknina. Við vitum að Vinstri grænir koma líklega ekki til með að ná sér á strik fyrir kosningar þrátt fyrir að þeir hafi skipt um mann í brúnni og séu komnir þar með konu. Ég óska hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með formennskuna.

Það eru greinilega kosningar í nánd. Samfylkingin hefur alveg steingleymt því að hún hefur átt sæti í ríkisstjórn í sex ár. Hún fór inn í ríkisstjórn 2007. Það er nokkuð eins og tár í tómið hvernig þingmenn flokksins tala hér í dag. Mjög einkennileg staða er komin upp í íslenskri pólitík og á sér líklega ekki fordæmi að formenn ríkisstjórnarflokkanna sitji mjög áhrifalitlir hjá. Við vitum að hæstv. atvinnuvegaráðherra er nánast búinn að sölsa undir sig öll ráðuneytin sem voru í boði og hefur nú látið af formennsku í Vinstri grænum og Samfylkingin hefur kosið sér formann sem á ekki einu sinni sæti í ríkisstjórn. Þetta er einkennileg staða og til að varpa enn frekar ljósi á þá ringulreið sem á sér stað innan ríkisstjórnarinnar birtist hæstv. innanríkisráðherra í fréttum í gær og bendir á Alþingi Íslendinga þegar hann treystir sér ekki til að uppfylla lög sem sett eru á Alþingi. Þá er ég að vísa í það þegar Alþingi löggilti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ungir fangar (Forseti hringir.) mega ekki sitja í fangelsi með fullorðnum.

Svona er heimurinn lítill og skrýtinn í lífi þessarar ríkisstjórnar og til að kóróna allt saman tekur hæstv. innanríkisráðherra sér dagskrárvald þingsins með því að taka (Forseti hringir.) forvirkar rannsóknarheimildir af dagskrá.