141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér var vitnað til viðskilnaðar við heilbrigðiskerfið, en hvernig skildi Sjálfstæðisflokkurinn við íslenskt samfélag haustið 2008? (Gripið fram í: Með Samfylkingunni.) Hvernig er nú slóðin sem við höfum fyrir augunum? Ætli sporin hræði ekki aðeins þegar kjósendur þurfa að gera það upp við sig í næstu kosningum hvaða leið þeir vilja fara inn í framtíðina? Aldrei var ójöfnuður meiri, aldrei var óráðsían og yfirgangurinn í samfélaginu meiri, auðlindir muldar undir sérhagsmunaöfl, stórkostlegar lántökur til áhættuviðskipta settar í eignarhaldsfélög og síðan afskrifaðar.

Stjórnarstefna Sjálfstæðisflokksins er eins og kraðakið á bílastæðinu fyrir framan landsfund flokksins um síðustu helgi þar sem hver og einn reyndi að ota sínum tota og enginn gat virt þær reglur sem giltu. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) Samfylkingin býður hins vegar annan valkost, hún hefur sýnt kjark til að breyta, til að innleiða nýtt skattkerfi, auka jöfnuð í samfélaginu, lækka skattbyrði tekjulægstu hópanna, auka hagvöxt, vinna á atvinnuleysi og mæta ungum fjölskyldum í greiðsluvanda.

Samfylkingin hefur líka þann kjark að halda inni á dagskrá umræðunni um framtíð okkar sem þjóðar í samfélagi þjóðanna og í hvaða umhverfi við ætlum að lifa og starfa og bjóða komandi kynslóðum að lifa og starfa. Eins og hæstv. utanríkisráðherra orðaði það svo ágætlega hér um daginn: Krónan er þyngsti skatturinn eins og sakir standa. Við höfum sett á okkar dagskrá líka að samþykkja nýjan samfélagssáttmála eftir allt sem gerðist hér 2008 með samþykkt nýrrar stjórnarskrár og skera upp til dæmis kvótakerfið, þetta meingallaða forréttindakerfi. (Forseti hringir.) Gegn þessu ólmast Sjálfstæðisflokkurinn núna sem aldrei fyrr og það er kannski skýrasti vitnisburðurinn um það hvernig sporin hljóta að hræða kjósendur í næstu kosningum. (Forseti hringir.)