141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

hafnalög.

577. mál
[23:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Mér finnst ekki fráleit hugmynd að málið fái umsögn fjárlaganefndar, en hins vegar finnst mér þetta afskaplega einfalt mál. Eru menn tilbúnir að fallast á þau heimildarákvæði sem er að finna í lögunum og á þann ramma sem verið er að setja fyrir hafnirnar í landinu? Ég vek athygli á því að fjölmargir aðilar hafa komið að smíði þessa frumvarps. Ég vil nefna samtök hafnanna, sveitarfélögin og ýmsa aðra hagsmunaaðila þannig að frumvarpið er ekki sprottið upp úr einhverju tómarúmi nema síður sé. Ég held ég geti fullyrt að um það er bærileg sátt. Síðan er það undir fjárveitingavaldinu komið hverju sinni hve miklir fjármunir eru látnir renna til hafnarframkvæmda í landinu. Mér finnst það liggja í augum uppi. Ég efast nú um að fjárlaganefnd, þó hún verði öll af vilja gerð, geti komið með einhver svör um framtíðarviljann í þeim efnum hér í þessum sal.