141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Framsóknarflokkurinn er kominn í æðistóran hring í málflutningi sínum. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði í umræðum í gær að hann hefði aldrei viljað breyta stjórnarskránni. Þar gleymdi þingmaðurinn stefnu Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar sem var einmitt að kjósa til stjórnlagaþings og breyta stjórnarskránni. (Gripið fram í: Alveg rétt.) Hv. þingmaður sagði líka í umræðum um fiskveiðistjórnarmálin fyrir skömmu að hann hefði aldrei viljað 20 ára nýtingarsamninga á nýtingu fiskveiðiheimilda, en í bókun sem þingmaðurinn lagði fram í svonefndri sáttanefnd um fiskveiðistjórn sagði þingmaðurinn að það væri einmitt það sem hann vildi.

Nú bjóða framsóknarmenn í sérstakri fréttatilkynningu fram sættir í stjórnarskrármálinu. Það sem þeir bjóða er auðlindaákvæðið frá árinu 2000 þar sem nýtingarréttur auðlindarinnar er viðurkenndur sem óbein eignarréttindi sem njóti friðhelgi eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þeir eru tilbúnir að gefa fiskveiðiauðlindina og auðlindir þjóðarinnar þeim hagsmunaaðilum sem hafa nýtt þær til þessa. (Gripið fram í: Farðu rétt með.) (Gripið fram í: Að þú skulir tala svona …) (Forseti hringir.)

Þetta er sama ákvæðið og framsóknarmenn höfnuðu sjálfir árið 2009 (Gripið fram í.) og minnir þessi sjálfsamkvæmni framsóknarmanna líka á kosningaloforðin sem verið er að gefa núna. Fyrir tíu árum lofuðu þeir því að aðstoða heimili landsins við að skuldsetja sig með 90% lánahlutfalli húsnæðislána og hækkun hámarkslána hjá Íbúðalánasjóði. Nú koma þeir með loforðin og lofa því að aðstoða þessi sömu heimili út úr skuldavandanum. Þeir gleyma eigin orðum, þeir gleyma eigin bókunum og það sem verra er, þeir hafa gleymt sinni eigin stefnuskrá. En kosturinn við þetta er náttúrlega sá að nú er gríma gömlu (Forseti hringir.) framsóknarmaddömunnar fallin (Gripið fram í.) því þessi stjórnmálaflokkur er náttúrlega gamall valdaklíkuflokkur og það er komið í ljós.