141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og ég segi bara: Loksins. Það er búið að vinna lengi í þessu og ég var í þeirri nefnd sem var skipuð fulltrúum allra flokka og margra hagsmunasamtaka sem áttu að fjalla um lífeyrisréttindi. Fyrsta verkefni þeirrar nefndar var það sem kemur hérna fram, þ.e. einföldun á bótakerfi til ellilífeyrisþega. Það á eftir að vinna sambærilegt kerfi fyrir öryrkja sem er að mínu mati miklu veigameira af því að þar kemur inn í örorokumatið, endurhæfing og annað slíkt. Það verður eflaust mjög erfitt viðureignar en ég tel að það sé kannski öllu mikilvægara.

Ég lít á framlagningu þessa frumvarps í því ljósi að það fari nú til nefndar og nefndin vísi því til umsagnar og að út úr þeim umsögnum, sem munu vonandi koma frá sem flestum, komi fram ábendingar sem hægt verður að nota við aðra framlagningu málsins á næsta þingi.

Vandamál lífeyriskerfisins á Íslandi mundi ég flokka undir þá staðreynd að við erum að bæta hluti mjög víða. Húsnæði er til dæmis bætt mjög víða. Ég veit ekki einu sinni hvort ég muni það allt saman en Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar til dæmis námsmönnum á mismunandi hátt eftir því hvort þeir búa í heimahúsum hjá foreldrum eða ekki. Þar er verið að bæta upp húsnæði. Síðan erum við með vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið og bæði kerfin eru að mínu mati arfavitlaus, ég leyfi mér að segja það. Vaxtabótakerfið gerir kröfu til þess að menn skuldi og borgi vexti til að fá húsnæðisbætur og í húsaleigubótakerfinu er tekjuviðmiðunin sú sama fyrir sex manna fjölskyldu og námsmann í háskóla. Bæði kerfin eru mjög gölluð og hafa verið það í áratugi. Ég hef bent á það í áratug og ekkert gerist.

Síðan erum við með hjá Tryggingastofnun heimilisuppbótina sem er líka styrkur til húsnæðis. Lífeyrisþegar sem búa einir fá meiri lífeyri en þeir sem búa tveir vegna kostnaðar við húsnæði. Það er dýrara að búa einn í húsnæði heldur en tveir í einni íbúð. Mjög víða er verið að bæta upp húsnæði og ég mundi, frú forseti, ef ég fengi einhverju um ráðið, setja á laggirnar heimilisbætur eða húsnæðisbætur sem tryggja bætur vegna húsnæðis fyrir þá sem eru undir ákveðnum tekjum og undir ákveðnum eignum og sleppa því alls staðar í hinum kerfunum. Þá næðist fram veruleg einföldun. Það mætti jafnvel koma með barnalífeyri inn í það kerfi vegna þess að sex manna fjölskylda, t.d. hjón með fjögur börn, þarf stærra húsnæði en einstaklingur, það er alveg á hreinu. Heimilisuppbæturnar gætu þannig tekið mið af fjölda í fjölskyldunni eða á heimilinu og þar með væri komin trygging fyrir börnin, barnalífeyrir. Þá mætti sleppa því víðast hvar annars staðar. Við erum að tryggja mjög víða sömu hlutina, framfærsla barnanna er tryggð mjög víða; hjá lífeyrissjóðunum, með húsaleigubótum, reyndar ekki með vaxtabótunum, svo náttúrlega í skattkerfinu með barnabótum og Tryggingastofnun borgar meira að segja skattfrjálsan lífeyri. Það er því mjög víða verið að bæta framfærslu barna. Það væri einfaldara að setja það allt í eitt kerfi.

Þetta kerfi sem við ræðum hér er vissulega einföldun frá því sem er í gildi núna í dag en það kerfi var flækt mjög verulega í september 2008. Ég hef farið í gegnum þetta áður en ætla kannski að endurtaka mig. Það var í september 2008 sem þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir setti reglugerð. Ég man ekki eftir sérstakri umræðu neins staðar um þá reglugerð sem fólst í að hækka lífeyri þeirra sem verst voru settir úr 150 þús. kr., sem þá var, upp í 180 þús., hækka lífeyri um 20%. Þetta var lítið rætt. Þessi lífeyrir skyldi skertur krónu á móti krónu en þar af leiðandi kostaði þetta voðalega lítið. Það eru ekkert voðalega margir sem hafa engar tekjur neins staðar, hvorki fjármagnstekjur, atvinnutekjur eða tekjur frá lífeyrissjóði. Þetta kostaði því ekkert voðalega mikið en hafði þær afleiðingar að fólk sem er með 73 þús. kr. í dag í lífeyrissjóði, lágtekjufólkið og millitekjufólk sem er búið að borga í lífeyrissjóði 30–40 ár og fær kannski 60, 70 þús. kr. í lífeyri, fær ekkert meira en sá sem aldrei borgar í lífeyrissjóð. Sá sem átti hugsanlega að borga í lífeyrissjóð — ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið. (Gripið fram í.) Það var nefnilega fjöldi manns sem átti að borga í lífeyrissjóð en gerði það ekki. Það var vitað. Það var vitað að af þeim sem áttu að borga í lífeyrissjóð voru 40 þús. manns á vinnumarkaði sem borguðu ekki í lífeyrissjóð. (Gripið fram í.) Fjöldi manns átti að borga í lífeyrissjóð en gerði það ekki og þeir standa núna fyrir framan Tryggingastofnun, eru ekki með réttindi úr lífeyrissjóði en vilja fá bætur.

Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir 1969 í kjarasamningum og árið 1970 voru sett lög sem skylduðu alla launþega á Íslandi til að borga í lífeyrissjóð, en það var bara ekkert eftirlit með því. Þess vegna létu margir borga sér út iðgjaldið í lífeyrissjóðinn og hækka launin vegna framlags atvinnurekenda og stungu þessum 10% í vasann. Og spurningin er: Hvað gerðu menn við það? Hinir sem borguðu í lífeyrissjóði eru skertir vegna lífeyris úr lífeyrissjóði. Sumir eru búnir að borga í 40 ár og fá ekkert meira en hinir sem ekki borguðu. Þetta er óréttlætið. Menn geta sagt að verið sé að bæta þeim upp sem eru verst settir. Þá spyr maður: Hvað gerðu þeir við iðgjaldið? Og hvernig stendur á því að svona gífurlegur fjöldi Íslendinga hefur ekkert unnið um ævina?

Allir sem hafa unnið síðan 1974, en þá voru sett lög um lífeyrissjóðina, eiga að vera með réttindi í lífeyrissjóði. Það er mjög einfalt. Þeir eiga að hafa réttindi úr lífeyrissjóði og samt er ekki um það að ræða hjá fjölda manns. Umræðan snýst alltaf um það eins og menn eigi engin réttindi í lífeyrissjóði.

Það ætti að vera regla að menn séu með réttindi í lífeyrissjóði, það á að vera reglan. Um 5% þjóðarinnar eru fatlaðir og aðrir slíkir sem aldrei fara á vinnumarkað, það eru ekki fleiri. 95% eru á vinnumarkaði og við erum að tala um fólk sem hefur unnið alla ævi einhvers staðar, er orðið 67 ára og starfsævin er búin, en hefur engin réttindi. Þá má spyrja: Hvað gerðu menn alla ævina? Hvar eru réttindin í lífeyrissjóði?

Framfærsluuppbótin kom aðallega þeim til góða sem í fyrsta lagi voru fatlaðir og voru aldrei á vinnumarkaði og það er ágætt. Það er reyndar búið að gera mjög mikið fyrir fatlaða, sérstaklega meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn. Hann gerði gífurlega mikið fyrir fatlaða. Ég ætla ekki að lýsa stöðunni hvernig hún var 1995 hjá fötluðum og hvernig hún var eftir að menn tóku upp sambýli og annað slíkt. Það má svo sem gera heilmikið í viðbót en það var gert mjög mikið átak í málum fatlaðra, fyrir þau 5% þjóðarinnar sem ekki eru á vinnumarkaði. Þá er spurningin til hinna 95%: Hvar eru réttindin í lífeyrissjóði?

Þegar skylduaðild að lífeyrissjóði var tekin upp 1974 og ég segi það satt, frú forseti, hún fólst í einni setningu: Öllum launþegum er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Ég segi það satt, frú forseti. Það var ekki meiri lagasetning í kringum það en þetta. Það var ekkert til um það að lífeyrissjóðirnir sem tóku á móti iðgjöldunum, sem voru þá um 10% af launum manna, stæðust lög og reglur og annað slíkt, enda fóru einstaka lífeyrissjóðir á hausinn, sem betur fer ekki margir, sjóðir sem fólk hafði verið skyldað til að borga í.

Löngu seinna voru sett lög um starfsemi lífeyrissjóða, og enn síðar var sett eftirlit með því að menn borguðu virkilega í lífeyrissjóð. Lagasetningin 1974 um að skylda alla launþega til að borga í lífeyrissjóð var því mjög vanhugsuð. Árið 1980 var þetta kerfi víkkað út fyrir alla, líka þá sem ekki voru á vinnumarkaði og þá sem voru t.d. stjórnendur, voru sjálfstætt starfandi o.s.frv. En það hafa ekki enn þá verið sett lög um það hvernig lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóði eiga að spila saman við Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun byggir á gegnumstreymiskerfi, það er borgað með fjárlögum hvers árs, og peningarnir fara beint frá þeim sem eru vinnandi, skattgreiðendum, yfir til þeirra sem eru bótaþegar. Kerfið er í reynd hugsað fyrir þá sem ekki eru á vinnumarkaði vegna þess að við settum upp kerfi lífeyrissjóða með skyldugreiðslum í lífeyrissjóð og allir sem eru á vinnumarkaði eiga að vera í lífeyrissjóði og eiga að fá réttindi sem eru háð tekjum. Maður sem er með tvöfalt hærri tekjur fær tvöfalt hærri lífeyri, það þykir eðlilegt af því að hann borgar sjálfur iðgjaldið sem í dag er 12%.

Það má segja að þetta frumvarp sé kannski fyrsta tilraunin til að taka á þessu samspili almannatrygginga og lífeyrissjóðanna og ég tel það vera vel, það er kosturinn við frumvarpið. Þess vegna stóð ég að því, reyndar með fyrirvara um kostnaðinn.

Þá ætla ég að ræða um lýðfræðilega þróun á Íslandi. Þannig var að 1930 og þaðan af fyrr var eymd og volæði á Íslandi. Það var ekki mikill hugur, ekki mikil gróska. Það var atvinnuleysi í fjölda ára frá 1930–1940 og staðan var mjög erfið og barneignir voru ekki mjög miklar. Síðan kemur stríðið og eftir 1940 gerist það að barneignum fjölgar mjög mikið. Mannfjöldatölur sýna þetta enn þá. Árgangar þeirra sem fæddust eftir 1955 eða svo og til dagsins í dag eru nokkurn veginn jafnstórir eða um 4–5 þús. manns. Fjöldi 5 ára barna í dag er nokkurn veginn sá sami og fjöldi þeirra sem eru 55 ára, árgangarnir eru nokkurn veginn jafnstórir, 4–5 þús. manns, auðvelt að muna það. En þeir sem eru lífeyrisþegar í dag eru fæddir fyrir 1945 og þeir eru mjög fáir, þeir árgangar eru mjög litlir. Í árgangi þeirra sem eru núna 71 árs — þetta getur maður bara lesið hjá Hagstofunni, frú forseti — eru 1.906 manns, tæplega 2 þús. manns. Strax ári seinna, eru 300 manns fleiri, meira en 15% fleiri, árgangurinn sem fæddur er ári seinna. Svona fjölgar í árgöngunum og fjöldi þeirra sem eru 56 ára í dag er kominn upp í 4 þús. manns. Það eru tvöfalt fleiri en þeir sem í dag eru 70 ára. Á næstu 15 árum munum við standa frammi fyrir því að taka á móti tvöfalt fleiri ellilífeyrisþegum en eru í dag. Og að halda að menn geti í þessari stöðu farið að bæta í kerfið finnst mér vera alveg ótrúlegt óraunsæi.

Við verðum að horfast í augu við þessa bylgju sem er fram undan. Það er ekki hægt annað vegna þess þeir sem eru vinnandi og standa undir þessu kerfi, segjum frá þrítugu til 67 ára, eru 4 þús. manns í árgangi alla tíð. Þeim fjölgar ekki neitt. Það er nánast sami fjöldi og í dag, 4 þús. manns. Þeim fjölgar ekkert sem standa undir þessu. Þannig er lýðfræðin og á þetta verða menn að horfa og segja: Hvernig ætlum við að ráða við þessa fjölgun á næstu 15 árum? Ég tala nú ekki um spítalana og heilsugæsluna sem er miklu dýrari fyrir þessa árganga en hina yngri.

Ég held að við þurfum að fara að setja á okkur raunsæisgleraugun, frú forseti, og sjá hvort við getum virkilega farið út í breytingar á kerfinu sem miða að því að enginn maður tapi krónu. Það var útgangspunkturinn. Það átti enginn að tapa krónu. Þeir sem voru í nefndinni með mér muna þá setningu. [Hlátur í þingsal.] Einn er hérna í salnum þannig að hann man þessa setningu. Það átti enginn að tapa krónu. Þvílíkur rausnarskapur, ég segi ekki annað. Ég minni á umsögn fjármálaráðuneytisins sem ég ætla ekki að fara út í vegna tímaskorts en ég geri það kannski í annarri ræðu.