141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um Rolling Stones eins og um aðra þætti málsins. Það er augljóst að vilji er til að auka sveigjanleika í þeim efnum. Við horfum á að víða í Evrópulöndum er þetta stórfellt vandamál vegna þess að fyrir einhverjum árum eða áratugum voru teknar ákvarðanir, sérstaklega í sunnanverðri álfunni, um alveg óraunhæfan eftirlaunaaldur. Við þekkjum dæmi bæði frá Frakklandi, Grikklandi og ýmsum öðrum ríkjum Evrópu þar sem menn, í þeirri trú að nægt fjármagn væri til og nóg væri til af öllu fyrir alla, tóku ákvarðanir sem þeir hafa síðan þurft að endurskoða.

Hluti af því sem Svíarnir glíma við er það sama. Sænska velferðarkerfið var á margan hátt komið í ógöngur og það hefur komið í hlut núverandi ríkisstjórnar í Svíþjóð að snúa af þeirri braut með ýmsum hætti. Reyndar hefur hægri stjórnin sem nú situr í Svíþjóð fylgt þar í kjölfar stjórnar jafnaðarmanna sem sátu á undan og stigu reyndar athyglisverð skref í því að vinda ofan af velferðarkerfinu eins og það var orðið í sinni ýktustu mynd, bæði með ofursköttum og eins með velferðarkerfi sem ekki var hægt að standa undir. Um leið og við þurfum að varast að falla í sömu gryfjur og menn gerðu á sínum tíma fyrir 30–40 árum í hinum skandinavísku löndum, að halda að til væru einhverjar endalausar uppsprettur fjármuna sem hlutverk stjórnmálamanna væri bara (Forseti hringir.) að spila úr, er líka ástæða fyrir okkur að horfa á tillögurnar sem eru uppi þar, t.d. á (Forseti hringir.) því sviði, og kanna hvort við getum einhvern veginn nýtt okkur þær.