141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:33]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að sameina á einum stað nauðsynlegar heimildir og gera nauðsynlegar ráðstafanir, m.a. með lagabreytingum, til að einn heildstæður pakki gangi upp. Hér er til dæmis verið að færa inn í lög heimildir til að sveitarfélagið megi veita þær ívilnanir sem það hefur tekið að sér að gera og hefur samþykkt með samkomulaginu.

Hér er um að ræða fjórhliða samkomulag stjórnvalda, fyrirtækisins, sveitarfélagsins Norðurþings og hafnarsjóðs Norðurþings. Það þarf að vera hægt að ná utan um málið þannig í heild sinni að ljóst sé að öll púsluspilin falli á réttan stað. Það eru forsendur þess að menn geti tekið ákvarðanir og ráðist í framkvæmdir. Þær eru tryggingar fyrir því að allt gangi upp, að af innviðafjárfestingunum verði, að lög heimili þær ívilnanir sem boðið er upp á o.s.frv. Þess vegna er erfitt að sjá að hægt sé að gera þetta öðruvísi en að sameina það á einum stað í einu heildstæðu eða tveimur heildstæðum frumvörpum eins og hér hefur orðið niðurstaðan og lögfræðingar hafa fullvissað (Forseti hringir.) okkur um að það sé, a.m.k. af hálfu þeirra sem undirbjuggu þessi mál, fullkomlega (Forseti hringir.) fær leið og eðlileg miðað við þessar aðstæður.