141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á dagskrá þessa fundar eru ein 20 mál. Mikill fjölda mála er enn í nefndum. Einungis vika er til þess að við slítum þingi. Það hlýtur að vera komin sú stund að ríkisstjórnin taki ákvörðun um það hvaða mál hún ætli sér að setja í forgrunn þannig að hægt sé að koma einhverju skikki á þinglokin. Það er augljóst að allur þessi málafjöldi mun ekki klárast fyrir þinglok, það vita allir hv. þingmenn. Er ekki rétt að við setjumst niður, ríkisstjórnin lýsi því hvaða mál hún ætli sér að setja í forgang og við komum okkur saman um það hvernig við ætlum að vinna síðustu daga þessa þings? (Forseti hringir.) Þessi aðferðafræði gengur ekki upp og það er margbúið að prófa það. Það hefur verið prófað aftur og aftur og endar alltaf á sama stað. (Forseti hringir.) Eigum við ekki að reyna núna að gera þetta aðeins betur?