141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[12:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar aðeins að kalla eftir viðhorfi hv. þingmanns til þess þegar menn fóru hér í töluverðar launahækkanir. Gerðir voru framhlaðnir samningar, eins og stundum er sagt, þ.e. launþegar fengu eingreiðslur í upphafi, snemma á samningstímanum. Það skilaði strax miklum tekjum inn í ríkissjóð og við urðum auðvitað vör við það sem fylgjumst með framkvæmd fjárlaga hvernig skatttekjurnar skiluðu sér. Þá kom aðalhagfræðingur Seðlabankans og varaði við því að þessar launahækkanir gætu sett af stað ákveðna skriðu, þ.e. ef ekki gengi eftir sú atvinnuuppbygging, verðmætasköpun og sköpun starfa sem gert var ráð fyrir til þess að standa undir launahækkunum, væri fyrirséð að annað tveggja mundi gerast; að fólki yrði sagt upp eða þá að launahækkanirnar færu út í verðlagið, sem virðist því miður vera raunin. Mér fannst þessi ágæti maður tala dálítið út í tómið eins og oft þegar menn reyna að vara við einhverjum hlutum.

Því miður sýnist mér orð hans vera að rætast. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að verðbólgan væri komin á töluvert skrið, á mjög hættulega ferð. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að mjög varhugaverður tími sé fram undan þannig að við getum lent í áföllum vegna óðaverðbólgu og allra þeirra ókosta sem henni fylgja, sérstaklega í ljósi stöðu heimilanna eins og hún er í dag?