141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, þ.e. fjárfestingarheimildir. Hér erum við að fara í ákveðnar tímabundnar aðgerðir til að rýmka þær heimildir sem lífeyrissjóðirnir hafa til fjárfestingar. Við gerum okkur auðvitað öll grein fyrir því hvers vegna það er gert. Við erum í lokuðu hagkerfi með gjaldeyrishöft og fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna eru því miður ekki miklir. Það liggur síðan fyrir að ríkið mun draga verulega úr útgáfu á ríkisskuldabréfum og við þekkjum stöðuna hjá Íbúðalánasjóði þar sem ekki er þörf fyrir að fara í frekari útboð því helsta vandamál hans er auðvitað uppgreiðsla lána. Það er margt sem spilar hér inn í.

Það er nauðsynlegt að taka undir það sem hefur komið fram í andsvörum að hér verði að fara varlega. Þó svo að það megi kannski líta á þetta þannig að hér sé verið að rýmka tímabundið heimild til lífeyrissjóðanna að fjárfesta í óskráðum bréfum er mikilvægt að fara varlega með þessa heimild og ég geng út frá því sem vísu að lífeyrissjóðirnir muni gera það.

Við vitum að ný fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna er í kringum 120–130 milljarðar á ári. Samkvæmt þessu frumvarpi geta þeir farið að hámarki upp í 100 milljarða eða svo, en það er auðvitað ekki sjálfgefið að þeir muni nýta allar þær heimildir sem hér um ræðir.

Við verðum að átta okkur á því í hvaða umhverfi lífeyrissjóðirnir eru. Gjaldeyrishöftin, sem við erum öll sammála um að eru mjög óæskileg og ekki góð, brengla í raun og veru alla samkeppnisstöðu, hvort heldur lífeyrissjóðanna eða annarra. Það er staðreynd. Því fyrr sem við komumst út úr þeim því betra. Það er hins vegar hægara um að tala en úr að leysa, það verður bara að viðurkennast, en við höfum ýmsar leiðir til að vinna úr þessu og mikilvægt að sú breiða pólitíska samstaða sem hefur verið um það mál og hvernig beri að leysa það haldist. Maður fær nánast á hverri einustu viku frásagnir af því hvernig menn eru farnir að ganga um gjaldeyrishöftin, misnota þau eða kannski er réttara að segja nýta sér þau. Það er gríðarlega mikilvægt að nálgast hlutina út frá þessum þáttum.

Ég vil líka koma aðeins inn á það sem mér hefur stundum fundist vanta í umræðuna og snýr að því þegar lífeyrissjóðirnir selja erlendar eignir úti og koma inn með erlendan gjaldeyri til að taka þátt í því að losa svokallaða snjóhengju. Frægasta dæmið er kannski svokallað Avens-samkomulag sem var gert fyrir tilstuðlan Seðlabankans sem lífeyrissjóðirnir tóku þátt í þegar jöklabréfin voru keypt af seðlabankanum í Lúxemborg. Ég held að við verðum að setja þetta í aðeins stærra samhengi. Ég hef haldið því fram og mér finnst það blasa við að þegar lífeyrissjóðirnir koma inn með ákveðnar upphæðir, segjum bara 100 milljarða til að losa um snjóhengjuna, þá megum við ekki líta þannig á að öll upphæðin fari til þess verkefnis að losa um hengjuna, hún sé þetta stór hluti af því, vegna þess að um leið og gjaldeyrishöftin verða afnumin verða lífeyrissjóðirnir að fara og fjárfesta erlendis í mjög ríkum mæli. Ég hef því sett spurningarmerki við þetta og sagt: Ef sjóðirnir koma inn með 100 milljarða þá má líta svo á að við séum að tala um í kringum 10% af því vegna þess að þörfin hjá lífeyrissjóðunum til fjárfestingar eftir að gjaldeyrishöftin hverfa liggur út. Við erum að flytja inn gjaldeyri og skipta á svokölluðu skiptiverði Seðlabankans sem er auðvitað mjög brenglað en síðan þurfa þessar krónur að fara aftur út í gjaldeyri. Ég hef stundum lagt þetta upp þannig að lífeyrissjóðirnir komi með fjárhæðir inn í landið til að taka þátt í að leysa snjóhengjuna og það megi ræða um þær upphæðir sem kannski 15–20% af því sem þær eru vegna þess að þegar búið er að skipta gjaldeyrinum yfir í krónur þarf að skipta krónunum aftur yfir í gjaldeyri þegar búið er að afnema gjaldeyrishöftin.

Ég held að við þurfum að ræða þetta út frá þeim grunni vegna þess að mér hefur fundist þetta oft vanta inn í umræðuna þegar menn hafa sagt að verið sé að leysa snjóhengjuvandann með tilstuðlan lífeyrissjóðanna. Menn verða að átta sig á því að um leið og gjaldeyrishöftin hverfa þurfa lífeyrissjóðirnir að fjárfesta enn frekar erlendis.

Síðan er það þessi mikilvæga spurning sem við þurfum að taka inn í umræðuna: Hverjir eru eiginlega möguleikarnir fyrir lífeyrissjóðina að þrífast í þessu lokaða hagkerfi með gjaldeyrishöftin? Það er nánast algerlega útilokað. Það kemur af stað ákveðinni eignabólu í fasteignaverði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það hafa margir miklar efasemdir um hver innstæðan sé í raun og veru fyrir þeim hækkunum á hlutabréfum sem eru á skráðum markaði. Við þurfum að átta okkur á þessu, hvort við séum að fara í svipað far og var fyrir árið 2008. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við áttum okkur á umfanginu.

Síðan komum við líka að afkomubata lífeyrissjóðanna og hvað er að gerast í rekstri þeirra, það er mikilvægt að reyna að átta sig á því, það hef ég reyndar ekki alveg getað gert sjálfur. En við sjáum hvað er að gerast núna, menn eru að færa inn mikinn hagnað á árinu 2011 og 2012, annars vegar vegna þess að seldar eru erlendar eignir og koma með gjaldeyri inn til landsins á mjög skökku gengi og hins vegar hefur verðtryggingin áhrif á eignastöðu lífeyrissjóðanna. Þess vegna verður maður að setja ákveðin spurningarmerki við það hver afkomubati lífeyrissjóðanna er í raun og veru, við verðum að horfa á þetta í hinu stóra samhengi. Það gefur augaleið að þegar menn létta á rekstrinum með því að skipta erlendum eignum koma þeir fjármunir inn á allt öðru gengi sem brenglar heildarmyndina að mínu mati. Það er mikilvægt að menn átti sig á því hvernig þetta á sér stað.

Við megum heldur ekki gleyma því að við erum annars vegar með opinberu sjóðina og hins vegar með almennu sjóðina. Öll vitum við af ríkisábyrgðinni sem snýr að opinberu sjóðunum og gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á hvað það þýðir og ræði hvernig megi leysa þetta. Það eru gríðarlega háar tölur í opinberu sjóðunum í skuldbindingum, í B-deildina er búið að færa inn tæplega 400 milljarða skuldbindingar. Það er reyndar bara minnst á A-deildina í skýringum með ríkisreikningi. Það er ekki búið að færa skuldbindingarnar inn. Hv. fjárlaganefnd hefur gert athugasemdir við það og við unnum skýrslu fyrir lokafjárlög 2011 þar sem bent er á að það verði að fara að taka ákvörðun um það hvort færa eigi þetta sem skuldbindingu inn í ríkisreikning. Okkar mat er að svo þurfi að gera, það sé ekki nægilegt að hafa þetta bara sem skýringar í ríkisreikningnum. Það beri að fara með hlutdeildina eða skuldbindingarnar hjá A-deildinni með sama hætti og gert hefur verið með skuldbindingar B-deildarinnar og færa inn í ríkisreikninginn. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði gert.

Síðast en ekki síst, af því að ég nefni A-deildina, ætla ég að segja það úr þessum stóli að það er gríðarlega mikilvægt að við tökum hreinskipta umræðu — og ég hvet hæstv. ráðherra til þess og hef reyndar sagt það við hann á nefndarfundi — um það sem snýr að því ágæta fólki sem situr í stjórn A-deildar eða opinberu lífeyrissjóðanna fyrir hönd fjármálaráðuneytisins. Af hverju segi ég þetta? Það er vegna þess að skuldbindingin í A-deildinni er alltaf að aukast og það er vitað að hækka þarf iðgjaldsgreiðslur um 4% á ári til að standa undir lífeyrisskuldbindingum í A-deild. Þetta þýðir í kringum 4 milljarða á ári. En ég hef haldið því fram að með því að gera þetta ekki svona sýnum við ekki raunrekstur ríkissjóðs. En af hverju set ég þetta í þetta samhengi? Og af hverju skyldi ég nefna þetta ágæta starfsfólk sem þarna situr? Vegna þess að það hefur komið fram á fundum fjárlaganefndar í opinberum gögnum, og ég hef sagt þetta hér áður og ætla að gera það einu sinni enn, að fulltrúar launþegahreyfinganna hafa borið fram tillögu um að hækka útgjöld eða hækka iðgjaldið um 4%. Það var fellt af fulltrúum fjármálaráðuneytisins sem eiga sæti í sjóðnum. Af hverju var þetta gert? Það var þráspurt um þetta á fjárlaganefndarfundi og það var í raun ekkert erfitt að fá svörin, ég fékk meira að segja í hendurnar afrit af fundargerð. Fulltrúar launþegahreyfinganna sem báru upp þessa tillögu nánast vissu að hún yrði felld en lögðu hana fram bara út af sinni persónulegu stöðu sem fulltrúar í stjórn sjóðsins. Það er mikilvægt að hafa í huga ef þetta kemur upp aftur seinna. Það er mjög skýrt kveðið á um það í lögum um A-deildina, þegar hún var stofnuð, að hún ætti að vera sjálfbær og hækka þyrfti iðgjöldin eða, eins og Fjármálaeftirlitið heldur fram og deilur standa um, skerða réttindi. Það eru deilur um það.

Meiri hlutinn á Alþingi hefur brugðist við með því að hækka svokölluð vikmörk, þ.e. það má fara undir ákveðið hlutfall án þess að þurfa að hækka iðgjaldið. En þetta þurfum við að hafa á hreinu og sérstaklega í gögnum þingsins því það getur auðvitað komið upp sú staða — við skulum ekki útiloka það, maður útilokar ekki neitt, alla vega ekki ég — að vísað verði til þess að þær upplýsingar hafi komið fram á fundi fjárlaganefndar um að fulltrúar launþegahreyfinganna hafi lagt fram þessa tillögu, eftir að hafa fengið lögfræðilegt álit, vegna sinnar persónulegu stöðu sem stjórnarmenn í sjóðnum. Þess vegna er mikilvægt að þetta komi hér fram ef vísað verður til þessa einhvern tíma seinna.

Síðan vil ég líka tala um annað sem snertir lífeyrissjóðina. Við eigum að taka heiðarlega umræðu til að mynda um svokallaðan Framtakssjóð sem sjóðirnir tóku sig saman um og fóru í miklar fjárfestingar og keyptu upp fyrirtæki. Ég er hér um bil sannfærður um að ákveðin íslensk fisksölukeðja sem þeir eignuðust og seldu svo aftur — þ.e. Landsbankinn var búinn að selja hana, tekur hana aftur inn og Framtakssjóður tekur hana og síðan er hún seld og haldið eftir ákveðnum hlutum, til að innleysa töluverðan hagnað. Þeir leystu út töluverðan hagnað, en ég held að þetta geti haft mjög slæm áhrif inn í framtíðina út af aðgengi að fiskafurðum og sölu þeirra. Sú staða getur klárlega komið upp. Við sáum það bara í fréttum fyrir ekki svo mörgum vikum síðan þar sem fram kom að menn eru enn með íslenska vörumerkið, Icelandic-merkið, og síðan kom það upp á markaðnum í Bandaríkjunum að það var verið að pakka inn kínverskum fiski og flytja inn undir því vörumerki.

Það verður að horfa á þessar fjárfestingar og meta heildstætt fyrir þjóðfélagið. Það má ekki vera þannig að lífeyrissjóðirnir, svo ágætir sem þeir eru eflaust margir hverjir, geti bara vegna einhverra stundarhagsmuna farið í fjárfestingar, tekið þær eignir og síðan selt kannski með miklum hagnaði vegna þess að það getur auðvitað enginn keppt við lífeyrissjóðina í fjárfestingum. Þeir eru eins og stundum er sagt ríki í ríkinu, sérstaklega núna þegar aðgangur að fjármagni er eins og hann er. Þeir stjórna að langstærstu leyti, ef ekki öllu leyti, því sem snýr að fjárfestingum og fjárfestingargetu í íslenska hagkerfinu. Við verðum að átta okkur að því að ef verið er að rétta af reksturinn hjá þeim með þeim hætti að þeir innleysi mikinn hagnað á stuttum tíma — ég nefndi áðan þegar þeir koma inn með gjaldeyri og skipta honum yfir í íslenskar krónur myndast mikill hagnaður, sérstaklega eins og í því tilfelli sem ég nefndi áðan með Avens-samkomulagið. Í því tilliti verðum við að átta okkur á því að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna eftir að gjaldeyrishöftunum verður aflétt mun liggja út úr landinu vegna þeirrar skekkju sem komin er í eignasafnið. Það er því mikilvægt að hafa þetta allt í huga, sérstaklega í ljósi stöðu opinberu sjóðanna. Við erum með ríkisábyrgðir á skuldbindingum sjóðanna sem eru núna komnar vel á fimmta hundrað milljarða kr. og árið 2024 förum við fram af hengifluginu.