141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spyr hvort við höfum tekið mikla, djúpa, efnislega umræðu í hv. fjárlaganefnd sem snúi að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna. Við höfum ekki gert það. Við áttum hins vegar fundi með fulltrúum opinberu lífeyrissjóðanna því að opinberu sjóðirnir falla undir ríkið en ekki almennu sjóðirnir. Við vitum alveg hvernig það virkar, ef þeir tapa eða geta ekki staðið undir greiðslum þá skerða þeir bara réttindin, við þekkjum það. Hins vegar höfum við oft rætt það sem snýr að opinberu sjóðunum. Síðasti fundur sem við áttum með þeim var einmitt núna í vetur þegar gengið var frá svokölluðum gjaldmiðlasamningum við tvo banka þar sem þeir lokuðu þeim samningum. Þá var farið lauslega yfir þetta. Ég spurði forsvarsmenn lífeyrissjóðanna þá um þann þátt sem ég kom inn á í ræðu minni, hve mikils það væri metið þegar þeir koma inn með erlendar eignir og skipta yfir í krónur. Á svo háu gengi myndast mikill hagnaður hjá lífeyrissjóðunum en auðvitað er fjárfestingarþörf þeirra fyrst og fremst erlendis. Hún er þegar orðin röng og þarf að réttast, þ.e. þeir þurfa að fjárfesta mun meira erlendis en þeir hafa gert nú þegar. Þörfin er uppsöfnuð. Ég spurði og þeir tóku undir og samþykktu það sem ég sagði, þ.e. að ekki væri hægt að líta á það þannig að verið væri að minnka snjóhengjuna um nákvæmlega sömu upphæð og komið var með inn vegna þess að fjárfestingarþörfin beinist út þegar þeir losna.

Það er kannski einn af þeim þáttum sem ég get svo sem sagt við hv. þingmann í lok andsvarsins. Mér hefur oft fundist, til dæmis í nefndastörfum þó að það sé mjög fínt í hv. fjárlaganefnd, vanta mun meiri tíma til að taka svona umræður og eiga góðan tíma til að spá og spekúlera, hvort sem það er um þetta eða eitthvað annað, en því miður höfum við ekki náð að þróa það nægilega mikið á þessu kjörtímabili.