141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stjórnvaldssektir eru engu að síður í lögum nr. 38/2011 þar sem rætt er um VI. kaflann um viðskiptaboð og fjarkaup. Fjölmiðlanefnd er heimilt að setja stjórnvaldssektir á aðra fjölmiðla hvað varðar viðskiptaboð og fjarkaup, þannig að það er í sjálfu sér ekkert nýtt miðað við fjölmiðlalögin frá 2011. Ég held að það geti vart verið viðbót í þessum sérlögum um Ríkisútvarpið vegna þess að það er sömuleiðis í hinum fjölmiðlalögunum. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann hvað það varðar. Við munum bara lesa þetta betur saman og skoða það svo að það liggi þá alveg fyrir.

Varðandi svar hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um 14. gr. þá er verið að breyta þessu núna á síðustu metrum þessa kjörtímabils vegna þess að frá því að svokallaður skattur var lagður á jafnt á einstaklinga sem lögaðila sem greiða tekjuskatt hefur þessari aðferð ekki verið breytt. Þetta hefur verið réttlætt með því að segja verið sé að takmarka svið Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en samt sem áður þegar maður skoðar það og heyrir það sem aðrar fjölmiðlaveitur segja þá mun sá mínútufjöldi sem um ræðir í þessu frumvarpi ekki skerða tekjur Ríkisútvarpsins að því marki sem hér er lagt til að verði auknar.