141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

skattamál.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég hef ekki farið yfir þessa skýrslu, ég skal viðurkenna það. Ég mun gera það um leið og hún berst hingað og jafnvel áður. En af hverju ég telji að þetta tekjutap sé af virðisaukaskatti þá tel ég einfaldlega að við eigum möguleika á að fá meira af virðisaukaskatti inn. Ég tel að svo sé en það er hins vegar spurningin um upphæðir í því sambandi.

Af hverju held ég að svo sé? Ég held að það séu margvíslegar ástæður. Ein er sú að ég held að við þurfum að einfalda skattkerfi okkar fyrir minni aðila. Minni aðilar þurfa að fá meiri upplýsingar og jákvæðari nálgun á skattamálin og fá meiri leiðsögn. Ég held að það sé ein ástæðan og það er verkefni sem ég hef mjög mikinn áhuga á að beita mér fyrir og þegar er hafin vinna við það hjá okkur í ráðuneytinu. Við eigum ekki alltaf að líta á þetta á neikvæðan hátt heldur eigum við líka að nálgast fyrirtækin með (Forseti hringir.) jákvæðum hætti og hvetja þau til þess að skila þessu inn, og líka með upplýsingagjöf og einfaldari leiðum.