141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[10:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, um landbúnaðarháskóla og samstarf opinberra háskóla. Meginmarkmiðin eru þau að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi. Lagt er til með frumvarpinu að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum verði felld undir lög um opinbera háskóla og að lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, falli brott. Þá er jafnframt lagt til að samstarf opinberra háskóla, svonefnt háskólanet, verði lögfest.

Ég vil í upphafi koma aðeins inn á það umhverfi sem þessir háskólar starfa í. Það hefur verið viðurkennt af hálfu menntamálaráðuneytisins að þegar þeim var breytt á sínum tíma hafi ekki fylgt það fjármagn sem nauðsynlegt var til þess að þessir skólar gætu sinnt því starfi sem þeim ber samkvæmt lögum. Það er mjög mikilvægt og sérstaklega í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir útgjaldaaukningu vegna samþykktar þessa frumvarps þó að af lestri þess megi skilja að mjög hæpnar forsendur séu til þess að það geti gengið eftir.

Reyndar er gert ráð fyrir því í frumvarpinu, svo að því sé haldið til haga, að svokallað samstarfsnet — til þess var veitt tímabundin fjárveiting 2011, tveggja ára tímabundin fjárveiting sem var síðan endurnýjuð við fjárlagagerðina 2013 — muni auka útgjöldin eftir árið 2014 um 50 millj. kr. á ári. Þar ætla ég aðeins að staldra við. Þegar ákveðið var að búa til svokallað samstarfsnet var það lagt upp þannig, og samþykkt hér í þinginu við fjárlagagerð fyrir árið 2011 haustið 2010, að um væri að ræða tveggja ára tímabundið verkefni sem kostaði 300 millj. kr. Mörgum þótti það undarlegt að á sama tíma og verið væri að setja inn í nýtt tímabundið verkefni 300 milljónir væri verið að taka mjög sársaukafullar ákvarðanir um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og gagnvart ellilífeyrisþegum og öryrkjum.

Ég spurði töluvert um málið á meðan það var í meðförum fjárlaganefndar og var fullvissaður um — þannig var verkefnið kynnt fyrir nefndinni — að um tímabundið verkefni væri að ræða. Ég vil fá að vitna í röksemdafærslur ráðuneytisins þegar málið var lagt fram í fjárlaganefnd. Þá var það sett fram með hugsanlega sameiningu í huga. Það var grunnhugmyndin að þetta gætu verið fyrstu skrefin í því að skoða mjög rækilega kosti og galla þess að sameina háskólana. Við þekkjum þá umræðu sem hér er, um þá sjö háskóla sem við rekum hér, þ.e. þessa fjóra opinberu og þessa þrjá einkareknu skóla, og þannig var verkefnið kynnt.

Við fjárlagagerðina fyrir árið 2013 heldur verkefnið áfram og er þá áfram kynnt sem tveggja ára tímabundið verkefni. Maður staldrar við þessa hluti og veltir fyrir sér undirbúningnum að beiðnum fyrir svona fjárveitingu. Þegar á að fara að auka útgjöldin hjá ríkissjóði um 300 millj. kr. á tveggja ára tímabili, eða 150 millj. kr. á hvoru ári, hlýtur að þurfa að gera þá kröfu, sérstaklega þegar verið er að taka erfiðar ákvarðanir og skera niður á viðkvæmum stöðum á sama tíma — en þá var það gert þannig að verkefnið hefði gengið eitthvað hægar og meiri stofnkostnað hefði þurft og öll þau rök sem því fylgja. Ég hefði hins vegar viljað sjá háskólana sameinaða, hugmyndin var sú og áhersla var lögð á að það yrði skoðað.

Eftir að hafa sett í þetta verkefni 300 millj. kr. hefði ég viljað að við værum með í höndunum einhvers konar úttekt á því hvað hefði komið út úr þeirri vinnu, ég hefði viljað að við hefðum í höndunum kosti og galla þess að sameina háskóla. Það höfum við ekki í höndunum. Það kemur ekkert fram í frumvarpinu eða í nefndaráliti meiri hlutans um það hvers vegna svo er ekki. Það hefði verið eðlileg krafa að gera það þannig.

Því til viðbótar vil ég vitna beint í upphafið sem er haustið 2010 fyrir fjárlagaárið 2011. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að lesa þetta orðrétt:

„Farið er fram á að veitt verði tímabundið 300 millj. kr. framlag sem renni til þessa samstarfs þar af 150 millj. kr. í fjárlögum 2011 og 150 millj. kr. í fjárlögum 2012. Að auki er lagt til að samdráttur í framlögum til opinberu háskólanna verði heldur minni en til þeirra háskóla sem eru reknir af öðrum og hafa einnig umtalsverðar tekjur af skólagjöldum.“

Ég er ekki að segja að fjárveitingin hafi komið inn á fölskum forsendum, en hún stendur að mínu mati á mjög veikum grunni. Þegar farið er fram á fjárveitingar með þessum þætti finnst manni það eðlileg krafa að hlutirnir gangi eftir. Ég var síðan mjög hissa þegar breytingartillögur komu aftur nú í haust. Þá var það nefnilega nokkuð merkilegt, virðulegur forseti, að aftur var sótt um tveggja ára tímabundna fjárveitingu með þeim rökum að halda þurfi verkefninu áfram.

Nokkrum vikum seinna kemur lagafrumvarp sem menn hafa væntanlega verið langt komnir með að semja, ef ekki var búið að semja það. Á sama tíma og sótt var um tveggja ára viðbótarfjárveitingu við upphafið var verið að lögfesta verkefnið. Þetta eru mjög sérkennileg vinnubrögð. Á þeim fjórum árum sem talað hefur verið um að verkefnið hafi verið tímabundið hafa farið í það 600 millj. kr.

Það fer ekkert á milli mála að þetta var kynnt á þennan hátt og það mjög ítarlega í fjárlaganefnd og ég spurði töluvert út í þetta verkefni. Það var að koma nýtt inn og þess vegna hrökk maður dálítið við að verið væri að setja inn tímabundin verkefni sem kölluðu á mikil fjárútlát þegar verið væri að skera niður í viðkvæmum málaflokkum.

Ég las hér yfir ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar sem kom inn á þetta þegar verið var að taka þessa ákvörðun haustið 2010 en hv. þingmaður var þá formaður menntamálanefndar. Þá kemur það mjög skýrt fram að skilningur hans og hv. menntamálanefndar, og hv. þingmanna í menntamálanefnd, er á sömu lund og ég hef hér rakið, enda ekki hægt að efast neitt um það. Hv. þm. Skúli Helgason hnykkir á því að til þess að það geti leitt til hagræðingar sé það verkefnið að skoða hvort fara eigi í sameiningar. Það liggur fyrir en um það höfum við ekkert í höndunum, þ.e. hvað hafi komið út úr þeirri vinnu og hvort kostir þess og gallar að sameina háskólana hafi verið skoðaðir.

Það veldur manni töluvert miklum áhyggjum að þegar búið er að setja í þetta 600 millj. kr. á þessum erfiðu niðurskurðartímum skuli maður ekki hafa neitt í höndunum um það hvort það hafi verið skoðað eins og hugmyndin var og eins og verkefnið var kynnt. Maður verður að lýsa ákveðnum vonbrigðum með að ekki skuli vera hægt að festa fingur betur á því hvað hafi komið út úr þeirri vinnu. Ég veit ekki hvort þær upplýsingar liggja fyrir í ráðuneytinu, en mjög æskilegt væri að hv. nefnd mundi skoða þetta milli 2. og 3. umr.