141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:45]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil við lokaafgreiðslu þessa máls þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir mikla og vandaða vinnu við þetta mál. Þetta er tvímælalaust framfaramál, réttarbót fyrir lántakendur, eflir verulega neytendavernd á fjármálamarkaði, og er ekki vanþörf á, og tekur auk þess á smálánastarfseminni, setur henni skorður og vaxtaþak á slíka starfsemi sem sömuleiðis er mjög brýnt.

Varðandi umfjöllun um löggjöf á sviði húsnæðislána almennt sem hér var nefnt vil ég taka fram að nefnd er að störfum við að semja frumvarp um fasteignaveðlán eða íbúðaveðlán. Það er orðin niðurstaða ráðuneytisins að þörf sé á slíkri löggjöf, sérlöggjöf um þessa mikilvægu fjárfestingu, til viðbótar því sem löggjöf um neytendalán tryggir í þessum efnum. Fyrir þessu er gerð grein í skýrslu sem ég lagði fram á Alþingi nýlega þar sem hv. þingmenn geta lesið sér til um bæði hvar þetta mál er statt og um inntak þeirrar vinnu sem nú stendur yfir (Forseti hringir.) við að móta slíka löggjöf sem ákaflega æskilegt væri að Alþingi mundi síðan lögtaka eins fljótt og mögulegt er, væntanlega síðar á þessu ári.