141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

dagskrá fundarins.

[13:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Samkvæmt þessari niðurstöðu og úrskurði er nú hafin ný lota eftir þetta fimm mínútna hlé á fundinum. Þá geta menn byrjað aftur að tala um fundarstjórn forseta, tvisvar hver, og síðan er hægt að biðja enn á ný um stutt fundarhlé (UBK: Þú baðst um það.) og þá hefst ný lota á nýjan leik. Ég bað ekki um neitt hlé á þessum fundi, það var forseti sem ákvað það.

Ég ætla bara að lýsa þeirri skoðun minni að ég er ósammála þessari niðurstöðu forsetans og yfirstjórnar þingsins. Ég tel að hér sé enn á ný verið að teygja og toga heimildir þingskapanna út í hið óendanlega og beita þeim til að tefja eins mikið fyrir og hægt er. Ég mótmæli þeirri niðurstöðu og er henni algerlega ósammála.