141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Lúðvík Geirsson er enn að velta fyrir sér þjóðaratkvæðagreiðslunni síðastliðið haust velti ég því fyrir mér um hvað nákvæmlega var verið að greiða atkvæði í sambandi við þjóðareign á auðlindum þar. Það liggur fyrir að allir þeir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi í dag hafa lýst yfir að þeir vilji leita leiða til að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Það hefur legið fyrir árum saman og hefur ekkert með atkvæðagreiðsluna 20. október að gera.

Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í að flytja slíkar tillögur 2007 og löngu fyrir þann tíma voru menn að velta á milli sín þeim hugmyndum. Árið 2000 tóku allir flokkar sem þá áttu sæti á þingi þátt í mótun niðurstöðu auðlindanefndar sem gekk í ákveðna átt. Það hefur hins vegar alltaf legið fyrir að erfitt gæti reynst að ná saman um niðurstöðu í þeim efnum, en viljinn til þess að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá hefur ekkert með atkvæðagreiðsluna 20. október að gera.