141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Það er rétt að það komi fram að ég sat ekki á þingi þau 12 ár sem hv. þingmaður vísaði í þegar sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru í ríkisstjórn. Það er rétt að flokkarnir gátu farið fram með ofbeldi gagnvart minni hlutanum varðandi stjórnarskrárbreytingar, en það hefur verið heiðursmannasamkomulag í þinginu nánast óslitið síðan stjórnarskráin var samþykkt um að fara fram með málið í sátt í þinginu, að fara ekki fram með ofbeldi gagnvart litlum meiri hluta að því að breyta stjórnarskránni. Við það hefur alltaf verið staðið á meðan Framsóknarflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn.

Við skulum minnast þess að árið 2007 var nánast orðið samkomulag um að breyta þeim greinum sem umdeildastar voru í stjórnarskránni. En hvað gerist þá? Áður en Samfylkingin kom að þeirri vinnu krafðist núverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson þess að Samfylkingin hefði neitunarvald í nefndinni, þannig að ef þeim mislíkaði eitthvað varðandi þær breytingar á stjórnarskránni sem semja átti um gæti Samfylkingin staðið upp og farið frá borðinu, enda varð raunin sú. Þá voru ekki gerðar þær nauðsynlegu stjórnarskrárbreytingar sem þurfti 2007. Svo vitum við hvernig málið fór árið 2009.

Ef þessi tillaga að breytingum á stjórnarskrá á að vera framtíðin þurfum við fyrst að afnema hér fulltrúalýðræði því að þingmenn eru kosnir af landsmönnum og það þarf tvö þing til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Það ferli hefur dugað okkur hingað til.

Ég minni þingmanninn á það að frumvarpið er búið að taka miklum breytingum síðan það var lagt fram fyrst. Það var ekki hugsun þeirra sem lögðu frumvarpið fram að 2/3 hlutar gætu samþykkt stjórnarskrárbreytingar, það áttu að vera 38 þingmenn, þannig að nú er bara verið að klóra í bakkann. (Forseti hringir.)

Varðandi stjórnlagaþingshugmyndir Framsóknarflokksins verð ég að koma að þeim í seinna svari.