141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi síðustu ummæla hæstv. ráðherra er rétt að geta þess að vandinn við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október er einmitt sá að hægt er að lesa mismunandi hluti út úr henni. Ef spurt er í þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðu til tiltekinnar, mjög afmarkaðrar skýrrar spurningar, þá segir já og nei okkur eitthvað. Þegar spurt er annars vegar hvort menn vilji að tilteknar tillögur séu grundvöllur einhvers í framtíðinni og svo hins vegar er spurt nokkurra efnislegra spurninga sem hafa mjög almenna skírskotun en fela ekki í sér ákveðna afmarkaða tillögu eins og spurningarnar fimm gera, verður það erfiðara. Tökum til dæmis afstöðuna til persónukjörs. Menn geta verið vel fylgjandi því að persónukjör sé aukið og tekið þar með undir það sem spurt er um í könnuninni, en verið algjörlega andvígur þeirri útfærslu persónukjörs sem er að finna í tillögum stjórnlagaráðs sem var grundvöllur fyrstu spurningarinnar. Þetta gerir að verkum að það verður dálítið erfitt að lesa út úr hlutunum og gefur tilefni til mismunandi túlkana.

Það var ekki þetta, hæstv. forseti, sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um. Það sem ég ætlaði að koma inn á var að hann nefndi nokkra áhugaverða þætti um atriði sem er að finna í tillögum stjórnlagaráðs sem litla sem enga umræðu hafa hlotið í þjóðfélaginu. Ég ætlaði að nefna nokkur atriði til viðbótar sem mér heyrðist hæstv. ráðherra ekki koma inn á í sínu máli.

Ég nefni atriði sem hæstv. ráðherra hefur gert að umtalsefni áður og varðar skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, þ.e. að frumkvæði tiltekins hluta kjósenda þar sem í tillögum stjórnlagaráðs eru settar verulegar skorður við því hvaða mál megi bera undir atkvæði þjóðarinnar eftir ákvæðum þeirrar greinar. Sama á við um fullveldisframsal. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til þeirrar stefnu sem er tekin í breytingartillögum um að heimilt sé að framselja (Forseti hringir.) ríkisvald til stofnana sem Ísland á ekki aðild að, svo dæmi sé tekið.