141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það styttist í kosningar og það er ekkert voðalega mikill tími sem menn hafa til ráðstöfunar. Ég minni á að framsóknarmenn komu með einhverjar hugmyndir um auðlindaákvæðið og þá fór allt í bál og brand. Það er greinilega ekkert mikil sátt um það ákvæði enn og ekki búið að ræða það til sátta.

Nú er spurning mín til hv. þingmanns, í fyrsta lagi um þessi mörk, 25%, sem mér finnst vera mjög lág, allt að því auðmýkjandi, að 25% þjóðarinnar þurfi að samþykkja stjórnarskrá — það þykir mér mjög lágt, ég hefði talið að það þyrfti að vera eitthvað hærra en samt ekki svo hátt að stjórnarskránni verði aldrei breytt. Ég held að menn ættu nú að ræða það atriði til sátta við stjórnarandstöðuna og sleppa þessum djúpsprengjum og tundurskeytum sem menn hafa verið að skjóta undanfarna daga inn í málið. Auðlindaákvæðið er langt því frá útrætt að ég tel og þyrfti að ræðast mikið betur og væri hægt að gera það á næsta kjörtímabili.