141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að látið var að því liggja að hér hafi einhver hótun verið höfð uppi, það er fjarri öllu lagi. Ég er í raun og veru að vísa til þess sem hefur komið fram meðal annars hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, þar sem hann hefur sagt í ræðustól þingsins að efnisleg rök hafi verið fyrir töluvert miklu meiri umræðu — fyrir meiri umræðu, svo rétt sé eftir haft, um þetta mál en hann taldi greinilega að tími væri til. Þess vegna lýtur tillaga hans dagsins ljós.

Ég held að menn eigi nú að fara varlega í stórum yfirlýsingum. Svo tek ég líka eftir einu, virðulegi forseti, hvað varðar það mál sem við ræðum nú, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað í sjö og hálfa klukkustund eða svo, Samfylkingin hefur talað í fimm og hálfa klukkustund. Þetta er nú allt málþófið. Menn eru farnir að nota orðið málþóf býsna frjálslega og léttilega og hrópa það upp hér eins og þeim hentar án þess að skoða aðeins hvernig er í pottinn búið.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það er alveg rétt, það hefur verið töluvert mikið rætt. Menn hafa ekki náð samkomulagi um hvernig nákvæmlega menn vilja standa að þessu, mikið er til af gögnum o.s.frv., en ég tel að það sé nú nokkuð langt í land með málið.

Ég ætla að leyfa mér áður en ég svara frekar — af því ég veit að hv. þingmaður á eftir að koma hingað upp — að spyrja hv. þingmann þegar hann spyr mig um hvort ekki sé hægt að koma sér saman um þetta: Er hann að hugsa um það ákvæði eins og það lítur út frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, í þeirri mynd? Er hv. þingmaður að tala um ákvæðið eins og lítur út í þeim texta sem liggur fyrir í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur? Ég vil benda hv. þingmanni á, virðulegi forseti, að grundvallarmunur er á þessum tveimur ákvæðum. Eða er hv. þm. Helgi Hjörvar að velta fyrir sér þeim texta sem við höfum ekki öll séð, sem sendur hefur verið af hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, til annarra til skoðunar? (Forseti hringir.) Hvaða texta er hv. þingmaður að velta fyrir sér (Forseti hringir.) að sé svona auðvelt að ná sátt um?