141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er skemmtilegt þegar þingmenn leggja öðrum þingmönnum orð í munn og gera þau að sínum. Ég kannast ekki við að ég hafi á nokkurn hátt talað fyrir einhverjum samsæriskenningum þegar ég svaraði þingmanninum mjög málefnalega um breytingarákvæði sem þarf að gera á stjórnarskrá göngum við í ESB. Ég bendi hv. þm. Birni Vali Gíslasyni á að hann verður að eiga þessa sósíalistaumræðu við þann þingmann sem situr hér fyrir aftan mig á forsetastóli, því ég get því miður ekki svarað fyrir aðra þingmenn þrátt fyrir að þeir séu samþingmenn mínir. (BVG: Ég spyr um þína afstöðu.)

Það er hins vegar gott að sú spurning kom fram um hvers vegna við framsóknarmenn teljum að breyta þurfi núgildandi stjórnarskrá. Það er til þess að setja, eins og við höfum sett á oddinn, auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Nú skal hv. þm. Björn Valur Gíslason hlusta mjög vel, því ég var á mjög merkum fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær þar sem Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti, hélt fyrirlestur um ESB og auðlindirnar. Vegna þess að hv. þm. Björn Valur Gíslason var meðal þeirra þingmanna sem réðust heiftarlega á hugmyndir okkar framsóknarmanna þegar við komum fram með tillögur okkar að auðlindaákvæði sem byggðist á skýrslu auðlindanefndar frá 2002, að nýtingarréttinn yrði að vernda í stjórnarskrá, vil ég segja að það er nýtingarréttur auðlindanna sem Evrópusambandið sækist eftir og hefur umráð yfir, en ekki eignarhald auðlindanna. Eignarhald auðlindanna er alveg klárt, það er í eigu þjóðríkjanna, en löggjöf Evrópusambandsins og regluverk byggir allt á því að nýtingarrétturinn færist til Evrópusambandsins. Nú er ágætt að hv. þm. (Forseti hringir.) Björn Valur Gíslason fari með þetta nesti með sér úr þessum fyrirspurnum við mig.