141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að húsakostur Landspítalans er úreltur, hentar ekki Landspítalanum. Hver dagur sem líður í þessum húsakosti felur í sér mikla sóun; sóun á fé, sóun á vinnuframlagi, hæfileikum og tíma. Það er orðið gríðarlega aðkallandi að reisa nýja byggingu fyrir Landspítalann og í því felst í raun og veru sparnaður í rekstri spítalans sem við getum síðan nýtt til að bæta þjónustuna. Það er í rauninni sorglegt að við höfum ekki hafist handa við þetta verk miklu fyrr, þetta hefur tekið allt of langan tíma.

En ég fagna því að við ætlum að gera þetta núna. Auðvitað þarf að gera miklu fleira líka. Það þarf að byggja upp heilsugæsluna til að létta álaginu af spítalanum. Það þarf að byggja upp hjúkrunarrými. Það þarf að byggja upp heilbrigðisstofnanir úti á landi. Auðvitað megum við ekki missa sjónar af heildarverkefninu, en þetta er gríðarlega mikilvægt skref og löngu tímabært.