142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Mig langar að renna í gegnum það sem við píratar erum hrifin af þegar kemur að stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ég byrja á því sem brennur á flestum akkúrat núna, sem eru skuldir heimilanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að við sýnum nú að við búum við úthald og kjark og leitum allra mögulegra leiða til að leiðrétta skuldir heimilanna og bæta hag þeirra.“

Það sem er á stefnuskrá okkar pírata hvað þetta varðar er að tryggja að fólk sé ekki rekið af heimilum sínum ef á þeim hvílir veð vegna láns og óvíst er hver skuldar hverjum hvað. Eins og kemur fram í neytendalánalögunum þá er það alveg skýrt að neytandinn skuli njóta vafans, höldum því til haga.

Einnig segir í stefnuræðunni að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna. Þessu ber að fagna og mætti jafnvel víkka þetta svolítið út þannig að almennt sé tryggt að réttlæti ríki í landinu með því að fólk geti sótt rétt sinn, sem þýðir að fólk eigi að geta sótt rétt sinn. Flestir skuldarar hafa „actually“ ekki tækifæri til að fara í dómsmál þó að mál séu sett í flýtimeðferð, þeir hafa hreinlega ekki efni á því. Þá er það spurning hvernig hjálpa eigi þeim sem ekki hafa efni á að hefja dómsmál til að sækja rétt sinn um lög sem við öll vitum að mörg hver eru ólögleg.

Það er eitt, vonandi að það verði tryggt, hægt væri að nýta lög um lögbann og dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda og nýlegur dómur bendir á að hægt er að nota þau lög þegar kemur að dómsmálum, þannig að ríkið gæti hafið þau dómsmál sem þyrfti og sett þau svo í flýtimeðferð til að tryggja að fólk fái réttlætinu fullnægt.

Mér fannst alveg æðislegt að sjá að tíu sinnum var orðið tækifæri notað, ellefu sinnum líklega, og einu sinni sóknarfæri og mjög mikið talað um framfarir. Þá er spurningin: Hvaða stóru tækifæri? Helstu tækifæri, ef við færum okkur yfir í það sem sagt er um að öflugt atvinnulíf sé forsenda vaxtar og velferðar og sérstök áhersla verði lögð á lítil og meðalstór fyrirtæki, vöxt útflutningsgreina o.s.frv. og nýsköpun og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar.

Og hvaða vaxtartækifæri hefur framtíðin best? Það er að nýta upplýsingatæknina, að nýta internetið. Þá komum við að litlum og meðalstórum fyrirtækjum en í McKinsey-skýrslunni um internetið 2011 er bent á að lítil og meðalstór fyrirtæki sem nýta sér internetið í miklum mæli vaxi tvöfalt hraðar, ráði tvöfalt fleira starfsfólk og tvöfaldi útflutningstekjur sínar sem er nú einmitt eitt af því sem við þurfum til að styrkja krónuna. Þetta er stóra tækifærið, þetta eru stóru framfarirnar. Við erum búin að tala við marga við vinnslu á þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að skoða þetta lagalega samhengi sem þarf að skoða og nýta þessi tækifæri, m.a. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og fleiri aðila. Það er engin mótstaða gegn þessu, það er engin mótstaða. Það eina sem vantar er það að við á þinginu setjumst niður og förum að vinna að þessum málum, setjum þau í svolítinn forgang út af því að þetta er stóra tækifærið.

Hagkerfi internetsins mun nærri tvöfaldast á næsta kjörtímabili. Það mun verða 4,2 billjónir dollara. Þarna eru stóru tækifærin. Ég vona að við getum öll í sameiningu unnið að því. Ekki virðist vera nein mótstaða gegn því. — Takk fyrir.