142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hún hafi breytt um skoðun frá því nokkrum dögum fyrir kosningar þegar fréttir voru sagðar af því að á fundi með Ferðamálasamtökum Vestmannaeyja hafi hún sagt að hækkun virðisaukaskattsins væri vond hugmynd og að hún mundi beita sér fyrir því að hækkunin kæmi ekki til framkvæmda. Sagt var að hún hefði tekið í höndina á fundarstjóra eða formanni samtakanna á fundinum upp á það að hún mundi beita sér fyrir lækkun gjaldsins. Mig langar til að vita hvort það hafi eitthvað breyst frá því að sá fundur fór fram eða hvort ekki sé rétt farið með það sem gerðist á fundinum.

Að öðru leyti finnst mér mjög mikilvægt, af því að hér er verið að ræða hina stóru mynd ríkisfjármálanna, að við komumst á saman stað um það hver staðan er í dag. Ég hef rakið nokkra liði sem gera útlitið fyrir árið 2013 miklu verra en að var stefnt. Það er minni hagvöxtur. Það leiðir til þess að tekjurnar rýrna um 4 milljarða. Tekjur af arði eða sölu eigna, fyrst og fremst sölu eigna í fjármálafyrirtækjum, skila sér ekki eins og að var stefnt. Þar vantar upp undir 4 milljarða. Veikleikar eru á útgjaldahliðinni. Það er staðan sem við okkur blasir. Vissulega ætlum við að reyna að bregðast við þeirri stöðu en það stefnir í að farið verði töluvert langt fram úr áætlun. Ef ekkert verður að gert stefnir í a.m.k. 6 milljarða framúrkeyrslu miðað við fjárlög eins og staðan er í dag. Þegar við bætist mikil þörf fyrir að gjaldfæra framlag til Íbúðalánasjóðs upp á 13 milljarða er staðan sem sagt 30 milljarðar í halla á yfirstandandi ári en ekki því sem næst hallalaus rekstur ríkissjóðs á yfirstandandi ári eins og síðasta ríkisstjórn tönnlast alltaf á að hafi verið hinn raunverulegi viðskilnaður hennar. Það skiptir máli að við séum sammála um þessi mál.

Ef ég fer með rangt mál er ég alveg til í að fá ábendingar um það.