142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem er frumvarp sama efnis og frumvarp sem samþykkt var á síðasta þingi og var síðasta mál liðins þings. Flutningsmenn eru auk mín þeir sömu og voru á síðasta þingi, hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Í frumvarpinu felst að sett verði nýtt tímabundið breytingarákvæði við stjórnarskrá Íslands sem geri okkur kleift að breyta stjórnarskránni með þeim nýja hætti að Alþingi verði ekki lengur einrátt um stjórnarskrárbreytingar eins og verið hefur hingað til þegar þurft hefur samþykki tveggja þinga með alþingiskosningar á milli til að breyta stjórnarskránni, heldur verði opnað fyrir þann möguleika að 2/3 hlutar þings geti samþykkt breytingar á stjórnarskrá sem síðan þurfi staðfestingu einfalds meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þó þannig að minnst 40 af hundraði allra kosningarbærra manna samþykki breytinguna.

Með þeirri breytingu, ef hún verður staðfest á Alþingi, værum við að opna nýja leið fyrir framgang stjórnarskrárbreytinga á þessu þingi. Þetta væru tímamót því að hingað til hefur þingið verið einrátt. Við værum þá að færa þjóðinni þátttöku í stjórnskipunarbreytingarvaldinu og búa okkur til tæki til þess að gera breytingar sem ég held að væri auðveldara að gera í almennri samstöðu í þinginu með góðum undirbúningi, með langan tíma fram undan, þ.e. allt kjörtímabilið, og við gætum náð saman um. Margt hefur verið nefnt í því efni. Í stjórnarsáttmála er talað um auðlindaákvæði og beint lýðræði. Ég er sammála því.

Ég nefndi í umræðu um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra hvort við gætum mögulega tengt starfsháttabreytingar hér í þinginu við heimild minni hluta þings, eins og í Danmörku, þar sem þriðjungur þingmanna getur vísað málum til þjóðarinnar og þar með bundið enda á málþófið sem hefur verið leiður fylgifiskur þingræðis á Íslandi undanfarna áratugi. Það eru því mörg tækifæri sem við höfum til þess að nýta þennan glugga ef við kjósum að opna hann. Ég tala fyrir því núna að við sameinumst um að opna þann glugga, skapa okkur það svigrúm á þessu kjörtímabili.

Ákvæðið er samkvæmt efni sínu tímabundið. Það rennur út árið 2017. Ég held að miklu máli skipti að við grípum þetta tækifæri og við höfum þá — sumir hafa efasemdir um þetta breytingarákvæði vegna samþykkisþröskuldarins og það verði snúið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að 40% kosningarbærra manna samþykki frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

Því er ekki að neita að þessi samþykkisþröskuldur var niðurstaða samningaviðræðna við formenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, sem nú eru formenn stjórnarflokkanna, á síðasta þingi og endurspeglaði áhyggjur þeirra af því að of auðvelt yrði að breyta stjórnarskrá. En við flutningsmenn töldum þetta færa leið vegna þess að þrátt fyrir allt er þetta nú ekki erfiðara en svo að 90 þúsund manns þarf til að samþykkja stjórnarskrárbreytingu.

Fyrir liggja, til dæmis á þessu kjörtímabili sem þetta frumvarp tekur til, óháð öllu öðru tvennar almennar kosningar. Sveitarstjórnarkosningar verða árið 2014 og ólíklegt er annað en að forsetakosningar verði háðar 2016. Það þýðir að alla vega eru tvö tækifæri til stjórnarskrárbreytinga fyrir okkur þar sem við gætum nýtt þennan glugga og komið breytingum að.

Ég tel það ókost allrar umræðu um stjórnskipunarbreytingar á Íslandi frá lýðveldisstofnun að þetta fyrirkomulag hafi verið með þeim hætti sem það er, þ.e. bundið við þingið og að þessi fortakslausa skylda skuli vera að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sé síðasta mál sem afgreitt sé í þinginu og að fara þurfi til Bessastaða og ná í forsetabréf um þingrof ef svona mál kemur fram. Þinglausnir voru með öðrum hætti en venjulega hér í vor út af þessu vegna þess að það þurfti að rjúfa þing, það var ekki hægt að ljúka þingi.

Þetta veldur því auðvitað að stjórnarskrárbreytingar hafa allt frá lýðveldisstofnun verið unnar í einhvers konar tímahraki og samningastappi á síðustu mánuðum þings áður en kemur að alþingiskosningum með örfáum undantekningum. Ég held að það sé stjórnskipun Íslands ekki til góðs, ég held að það sé ekki gott fyrir umræðu í þingsal um stjórnarskrárbreytingar.

Þess vegna skiptir miklu máli fyrir okkur að sameinast um að opna þennan glugga núna þannig að við eigum hann á þessu kjörtímabili. Það þarf hvort eð er 2/3 hluta þingmanna til að nýta hann, þannig að það verður nú ekki gert nema með atbeina núverandi stjórnarflokka að breyta stjórnarskránni. En við höfum þá þennan glugga opinn ef við kjósum að nýta hann. Mér þykir margt benda til þess að efnisleg rök séu til að ná fram ákveðnum breytingum á stjórnarskránni.

Síðan er búið að vinna mikla grunnvinnu sem nýtist auðvitað áfram. Lagt var fram frumvarp stjórnlagaráðs. Fyrir þjóðina var spurningin lögð hvort þjóðin vildi fá frumvarp byggt á þeirri vinnu. Það var lagt hér fram í þinginu í kjölfar þess að niðurstaða meiri hluta landsmanna, þeirra sem tóku þátt í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, var að menn vildu fá slíkt frumvarp. Áfram er auðvitað hægt að vinna með þær hugmyndir líka til viðbótar öllu því sem ég rakti hér áðan.

Ég tel þess vegna mikilvægt fyrir okkur að nýta þetta tækifæri, opna þennan glugga, sjá hvert við komumst í þverpólitískri samstöðu í þinginu og sköpum okkur tækifæri til frekari stjórnarskrárbreytinga á kjörtímabilinu.