142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, mér finnst þetta ekkert sérstaklega flókið. Þarna er verið að leggja til tímabundið ákvæði til viðbótar við breytingarákvæðið sem fyrir er þannig að ef þetta er samþykkt verða á þessu kjörtímabili að vera fyrir hendi tvær leiðir, báðar lýðræðislegar, til þess að breyta stjórnarskránni. Það getur vel verið að niðurstaða þingsins verði að hugsanlega muni þessi endurskoðun, áframhald hennar, taka allt kjörtímabilið og farið verði í breytinguna eftir hefðbundnum leiðum, en ég mæli með hinni. Við erum komin það langt á veg með endurskoðun á stjórnarskránni. Við erum nýkomin úr mikilli umræðu um hana undir lok síðasta kjörtímabils. Ég held við verðum að halda dampi í þessu. Það eru komnar mjög miklar og góðar athugasemdir við stjórnarskrárdrögin sem ég held að við ættum að mæta núna í vinnunni. Ég held að það sé betra fyrir heildarendurskoðun eins og þá sem er fyrirliggjandi að við ljúkum henni með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og sátt hérna í þinginu. Mér finnst það ekkert sérstaklega flókið þótt hin leiðin sé líka fyrir hendi.