142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram þar sem ég lauk fyrri ræðu minni, sem var um fund atvinnuveganefndar út af óveðrinu í september, og rifja aðeins upp það sem þar kom fram.

Á þann fund komu fulltrúar Bjargráðasjóðs og þar kom fram að þáverandi ríkisstjórn hefði brugðist mjög myndarlega við vegna eldgosanna eins og fyrirspyrjandi, hv. þm. Haraldur Benediktsson, gat um — og vert er að hafa í huga að þáverandi ríkisstjórn hafði ekki alltaf mikið fé milli handanna og var að kljást við þann mikla fjárlagahalla sem við fengum í arf eftir hrunið. Fram kom að hvorki meira né minna en 190 millj. kr. var varið úr ríkissjóði til Bjargráðasjóðs árið 2010 og 80 millj. kr. árið 2011 vegna eldgosanna. Þar var komið til móts við bændur og tjón þeirra á þessum svæðum. Þá sagði ég í umræðunni um þetta mál, með leyfi forseta:

„Þess vegna hef ég aðeins eina spurningu til hæstv. ráðherra. Hún er sú hvort ríkisstjórnin muni ekki standa jafn vel að baki þeim aðilum sem orðið hafa fyrir búsifjum í þessum náttúruhamförum og gert var svo myndarlega, meðal annars með aukafjárveitingu úr Bjargráðasjóði, þegar eldgosin urðu hér 2010 og 2011.“

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég og núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sátum þennan fund ætla ég að endurnýta þessa spurningu mína og setja hana hér skýrt fram og óska eftir skýru svari. Það er nefnilega ákaflega mikilvægt að til bænda og þeirra fólks komi úr þessari umræðu skýr skilaboð um að ríkisvaldið muni gera allt sem í þess valdi stendur til að koma til móts við Bjargráðasjóð þannig að styðja megi við bændur vegna þessara náttúruhamfara eins og gert var svo myndarlega af síðustu hæstv. ríkisstjórn.