142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Þetta er gott tækifæri fyrir nýja ríkisstjórn að kynna stefnumörkun sína í atvinnumálum og fyrir það ber að þakka. Hins vegar fannst mér tónn hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur heldur neikvæður og talar hún um að tími stóriðjustefnunnar sé liðinn og spyr um framtíðarsýn hæstv. iðnaðarráðherra varðandi hlut stóriðjunnar við uppbyggingu hér á landi.

Virðulegur forseti. Svo virðist vera að þingmenn Vinstri grænna geti ekki horft til uppbyggingar atvinnulífs á annan hátt en að tala niður stóriðjuna því að eins og hæstv. iðnaðarráðherra fór yfir í góðri ræðu sinni þá snýst atvinnulífið um mikið fjölbreyttara svið en akkúrat stóriðjuna.

Það er líka nokkuð merkilegt að verða vitni að því að hér er verið að tala stóriðjuna niður og vinstri grænir hafa nú yfirleitt fundið henni allt til foráttu, en rétt í lok síðasta þings fór fyrrverandi formaður Vinstri grænna, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fram með mál varðandi stóriðjuuppbyggingu á Bakka sem við framsóknarmenn fögnuðum mjög vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur ætíð skilið samspil nýtingar náttúruauðlinda í sátt við umhverfið í tengslum við atvinnuuppbyggingu.

Það virðist nefnilega ekki vera sama hvar stóriðjan má vera hér á landi í augum vinstri grænna, það er þá helst litið jákvæðum augum í kjördæmi fyrrverandi formanns flokksins. Við Íslendingar eigum gnótt tækifæra og ég fagna ræðu hæstv. iðnaðarráðherra hér áðan. Við þurfum að nýta auðlindirnar til að byggja upp öflugt atvinnulíf og þann skilning er augljóslega að finna í ríkisstjórninni.