142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[14:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Ég vil byrja þessa jómfrúrræðu mína á að þakka ykkur fyrir hlý handtök og góðar óskir þegar ég kom hingað til starfa í þinginu og ekki síður starfsmönnum þingsins sem tóku afskaplega vel á móti okkur. Hér er gott að koma og gott að vera og ég þakka fyrir þessa fyrstu viku sem ég hef unnið með ykkur. Hún hefur verið ánægjuleg og gefur fyrirheit um að vinnustaðurinn sé skemmtilegur og gefandi. Ég hlakka til að vinna með ykkur í framtíðinni.

Ég tók þá ákvörðun að tala undir þessum lið. Ég tek undir það sem hv. þm. Suðurk., Páll Jóhann Pálsson, sagði áðan, við erum sammála um að veiðileyfagjöldin séu eðlileg og þau þurfa að vera hófleg. Það er verkefni okkar í þessum sal að finna það hóf. Ég hef einkum áhyggjur af sérstaka veiðigjaldinu sem nú er sett á, sem er þungur baggi á uppsjávarveiðarnar. Það er alveg ljóst að það mun koma mjög skakkt niður í samfélögunum í sjávarbyggðunum í kringum landið. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig það mun koma niður á mínum gamla heimabæ, Vestmannaeyjum, þar sem uppsjávarveiðin er gríðarlega sterk, Höfn í Hornafirði, Fjarðabyggð, Þórshöfn og Vopnafirði þar sem mikið er unnið af uppsjávarfiski. Ég hef áhyggjur af því að þessar byggðir muni leggja mun meira fram en aðrar. Við þurfum að finna leiðir í þessu, það er verkefni okkar, og við í atvinnuveganefnd munum taka málið fyrir og ræða það áfram og reyna að finna sanngjarna lausn á því.

Fiskvinnslan er og hefur verið stóriðja þjóðarinnar undanfarin ár og ekki aðeins undanfarin ár heldur frá örófi alda. Þegar ég hlusta á umræðuna sem hér fer fram gleðst ég yfir því hversu mörg stór og merkileg skref hafa verið stigin í framþróun í veiðum og vinnslu. Framþróunin næst fram í skjóli stórra og öflugra fyrirtækja á landsbyggðinni, eins og hér kom fram áðan, og hefur afleiðingar inn á höfuðborgarsvæðið þar sem þjónustu- og tæknifyrirtæki hafa í ríkari mæli á undanförnum árum sótt sér verkefni í sjávarútvegi. Þar eru líka borguð há og mikil laun.

Sjávarklasinn er afar merkilegt fyrirbæri. Þar hafa fyrirtækin tekið sig saman og unnið að verkefnum innan sjávarútvegsins. Í Grindavík er Codland gott dæmi um gríðarlegan árangur sem hefur náðst í nýtingu sjávarafurða. Markmið þeirra að tvöfalda verðgildi hvers einstaks þorsks er afar áhugavert og ekki síst fyrir okkur á landsbyggðinni að upplifa það að unga fólkið okkar sem fór og sótti sér menntun á mölina er nú að koma heim aftur að taka þátt í klasasamstarfinu í heimabyggð; vinna sem verkfræðingar, lyfjafræðingar og hönnuðir að sköpun á nýjum og verðmætum vörum. Það er afar mikilvægt og skapar hálaunuð störf í samfélaginu og eftir því erum við að sækjast. Það er auðvitað eitt af verkefnum okkar hér að skapa fleiri vellaunuð störf. Um það snýst málið.

Ég hef hlustað á góðar ræður í dag, margt gott hefur verið lagt til og ég tek undir margt af því sem hér hefur verið sagt. En fyrst mörg okkar telja að það sé svona mikill peningur í sjávarútveginum af hverju erum við þá alltaf að tala um skatta, álögur og gjöld? Af hverju tölum við ekki um hærri laun? Er það ekki það sem þarf, hærri laun í sjávarútveginum, fiskvinnslunni? Það mundi skila sér til sveitarfélaganna í hærra útsvari. Ef fólkið í sjávarbyggðunum hefði laun á við þá sem eru í álverunum mundi margt breytast hjá mörgum sveitarfélögum, tekjurnar mundu aukast, fólkið mundi hafa það betra, ríkið fengi meiri skatt og veltan í samfélaginu yrði margfalt meiri. Á endanum mundi stærsti hlutinn af þeim peningum skila sér aftur til ríkisins en í gegnum launaumslagið hjá fólkinu. Um það snýst þetta allt saman, að auka tekjur fólksins. Kannski er tækifæri núna til þess. Við þurfum að nota árið sem fram undan er til að ræða hvernig við getum nýtt þær miklu tekjur sem skapast í atvinnulífinu til hagsbóta fyrir heimilin, sveitarfélögin og fyrir ríkið.

Í mínu sveitarfélagi þar sem ég bý núna, í Garðinum, voru menn að reikna út auðlindagjald og veiðileyfagjald á íbúa. Þegar menn fóru á mesta flugið í því á sínum tíma sáum við fram á að hver íbúi í Garðinum, sem þá taldi u.þ.b. 1.500 manns, mundi borga um 460 þús. kr. í veiðileyfagjöld á sama tíma og sveitarfélagið er með um eða innan við 100 þús. kr. tekjur á hvert mannsbarn í sveitarfélaginu. Á að fara að flytja alla þessa peninga í burtu? Er einhver ástæða til þess? Ég held ekki. Það er verkefni okkar hér að halda áfram þessum góðu viðræðum, samræðum, um þetta verkefni inn í framtíðina.

Hæstv. forseti. Ég vil líka nota tækifærið og segja frá því að á fund atvinnuveganefndar í vikunni komu fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun og fóru yfir stöðu fiskstofna og framtíðina á næsta kvótaári sem byrjar 1. september. Þar koma fram afar ánægjulegar upplýsingar í flestum stofnum en auðvitað ekki öllum. Mælingarnar eru kannski ekki góðar á loðnu og uppsjávarfiski þannig að við skulum anda rólega, peningarnir eru ekki komnir í kassann, við þurfum að veiða fiskinn fyrst. En það eru góðar vísbendingar um þorskinn og ufsann, ýsan er nú slöpp. Humarinn er í ágætu jafnvægi þó að þeir lækki hann aðeins, við þurfum að skoða það betur. Þeir auka við síldina þrátt fyrir að 50 þús. tonn hafi borið beinin í Kolgrafafirði.

Það leiðir hugann að því að aflareglan hefur verið 20% í fimm ár, það þarf að endurskoða hana. Ég spyr, núna þegar við ætlum að endurskoða aflaregluna hvort ekki sé rétt að fara með hana úr 20% í 25% og auka þannig veiðina enn frekar. Það hefur verið afar góð veiði síðasta ár, það hefur veiðst fallegur og stór fiskur, en verðfall hefur orðið á mörkuðum. Við þurfum að mæta því með því að geta boðið áfram góðan fisk á réttu verði. Við getum gert það með því að auka við kvótann enn frekar og haldið þannig mörkuðum okkar við, sem þurfa auðvitað á fiski að halda þegar verðið er orðið lakara.

Hér fyrr í dag var áhugaverð umræða hjá hæstv. iðnaðarráðherra og fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra um auglýsingaherferðina Inspired by Iceland. Ég tel að við þurfum að færa þá herferð upp á atvinnuvegina okkar, upp á fiskinn okkar sem við flytjum út. Við þurfum að auglýsa hann sem íslenskan fisk. Þess er hvergi getið á mörkuðum að um sé að ræða íslenskan fisk. Við þurfum að monta okkur svolítið af þeim frábæru afurðum sem við framleiðum og gera þeim hátt undir höfði, ekki bara hér í þingsal, í þjóðfélaginu, heldur á erlendum mörkuðum.