142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um að kreddugera, orðfærið sem hv. þingmaður notar um forréttindastéttir og ég veit ekki hvað og hvað, hvað er það annað en að kreddugera?

Ég vil koma inn á það að ég hef lagt fram frumvarp um að dreifa kvótanum á þjóðina. Það byggir á algjörri markaðsvæðingu. Honum yrði dreift jafnt og þétt aftur og aftur þannig að það yrði engin endanleg eign á kvóta þjóðarinnar. Þessi aflahlutdeild yrði algjörlega frjáls til framsals og til gjafar, t.d. fyrir þá sem ekki vilja veiða o.s.frv. þannig að þá mundi algjör markaður ráða í greininni og við þyrftum ekki að ræða um hvort hægt sé að veiða makríl eða einhverjar aðrar tegundir. Reyndar er makríllinn mjög arðbær en aðrar tegundir eru svo lítið arðbærar að þær greinar sem ætla að stunda þær veiðar geta eiginlega ekki borgað neitt veiðigjald og þá á það bara að vera þannig. Á markaði mundi það gerast að þær greinar þar sem kostnaðurinn er jafn mikill og arðurinn af greininni mundi veiðigjaldið vera núll. Í þeim greinum eins og makríl eða þorski eða öðru slíku þar sem arðurinn er mjög mikill yrði … (Gripið fram í.) Ég er ekki við, herra forseti.

Í þeim greinum sem skila miklum arði yrði veiðigjaldið hátt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki lausnin á því í staðinn fyrir að vera núna að bjarga einhverju við vegna þess að sumar greinar geta ekki starfað undir þessu sovétkerfi sem við höfum komið á?