142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu brýna umfjöllunarefni.

En að öðru. 10 milljarða gjafabréf til útgerðarmanna, lækkun veiðigjalds, er forgangsmál ríkisstjórnarinnar og er hér á sérstakri hraðferð með aukafundum í gegnum þingið. Á sama tíma bólar ekkert á frumvarpi um leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja. Í gær hygg ég að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi stöðvað afgreiðslu á því máli þannig að það verður ekki lagt hér fram í dag og kemst ekki til umræðu í dag. Kjarabætur fyrir útgerðarmenn á hraðferð í gegnum sumarþingið sem er að að verða að lokum komið og ekkert frumvarp komið fram sem lýtur að kjörum aldraðra og öryrkja, hvað þá að það sé farið í gegnum umræður eða nefndastörf. Þó lofuðu því allir stjórnmálaflokkar sem nú eiga sæti á Alþingi að skerðingar á öldruðum og öryrkjum frá 2009 yrðu leiðréttar.

Ég hlýt að spyrja þingmenn Sjálfstæðisflokksins: Hvað dvelur orminn langa? Á ekki að efna kosningaloforðin? Og hvað finnst þingmönnum Framsóknarflokksins um það að stjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra þeirra mæti þessari andstöðu? Á bara að aflétta þeim skerðingum sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi eða hvað veldur því að hálfum mánuði eftir að þingið kom saman er frumvarp um útgerðarmenn ekki bara búið að fara í gegnum 1. umr., ekki bara framlagt, ekki bara farið út til umsagnar, heldur komið í fulla vinnu í nefnd meðan hér er ekki einu sinni búið að sýna það að leiðrétta eigi kjör aldraðra og öryrkja. Hvað veldur þessu?