142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að vekja athygli á hreyfiseðli en talsverð umræða hefur verið um hreyfiseðil í fréttamiðlum undanfarna daga. Það er framkvæmdastjóri SÍBS sem hefur haft forgöngu um innleiðingu hreyfiseðils í heilbrigðiskerfinu. Hreyfiseðlar eru ákveðin bylting í hugarfari og nálgun þeirra hér á landi er gerð að fyrirmynd Norðurlandanna en þar hefur notkun þeirra gefist mjög vel. Hreyfiseðlar eru ávísun lækna á hreyfingu sem getur eftir atvikum komið í stað lyfja eða minnkað þörfina fyrir þau. Skipulögð hreyfing hefur reynst vel meðal annars til að vinna á hinum ýmsu sjúkdómum, má þar meðal annars nefna kvíða, sykursýki, kransæðasjúkdóma og marga aðra.

Hreyfiseðillinn er tilraunaverkefni til tveggja ára og stefnt er að því að á því tímabili verði hann orðinn raunhæfur valkostur í heilbrigðiskerfinu á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og víðar á landsbyggðinni. Núna hafa alls 17 heilsugæslustöðvar samþykkt þátttöku í verkefninu. Hreyfiseðill á að standa jafnfætis lyfseðli í heilsugæslunni og verði skrifaður út ýmist í stað hans eða samhliða lyfseðli. Þegar læknir skrifar út hreyfiseðil er einstaklingum vísað til samhæfingaraðila innan heilsugæslustöðva til ráðgjafar og eftirfylgni. Þar verða möguleikar og geta til hreyfingar metin, sett fram markmið og útbúin æfingaáætlun. Þetta tilraunaverkefni samræmist vel stefnu okkar framsóknarmanna um að styðja fólk til sjálfshjálpar, bættrar heilsu og virkrar þátttöku í samfélaginu.