142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

ummæli í störfum þingsins og framhald sumarþings.

[11:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er alvarlegt mál og áhyggjuefni fyrir hæstv. forseta og hv. þingmenn ef þingmönnum er haldið utan við upplýsta umræðu með því að halda frá þeim upplýsingum. Ég sendi að kvöldi miðvikudagsins 12. júní beiðni til formanns fjárlaganefndar, og lét reyndar alla fjárlaganefnd vita um þá beiðni mína, þar sem ég óskaði eftir fundi í fjárlaganefnd í kjölfar blaðamannafundarins og bað um að hann yrði eigi síðar en föstudaginn 14. júní. (VigH: Þú nefndir …) Hugmyndin var sú að við þingmenn gætum sinnt eftirlitshlutverki okkar, tekið þátt í almennri umræðu vegna þess að markmið blaðamannafundarins hefur væntanlega verið að koma út til almennings áhyggjum af stöðu ríkisfjármála. Þingmenn þurfa að taka þátt í þeirri umræðu og þurfa því að fá kynningar og upplýsingar. Þegar síðan (Forseti hringir.) fundurinn var haldinn á reglulegum fundartíma fjárlaganefndar var aðeins farið yfir veikleika gjaldamegin eftir þrjá fyrstu mánuðina en ekki rætt um tekjur. (VigH: Ég hef upplýsingar um …)