142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

nýjar reglur LÍN um námsframvindu.

[11:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda, það var lagt upp með 1. febrúar í því frumvarpi sem ekki varð að lögum. Það vekur athygli að við ríkisstjórnarskipti var ekki búið að ganga frá staðfestingu á neinum breytingum á úthlutunarreglunum eins og stjórn lánasjóðsins lagði upp með. Það er rétt að hafa það í huga.

Sú staða er uppi að hér urðu ríkisstjórnarskipti 23. maí og það var skipuð ný stjórn lánasjóðsins sem fékk meðal annars það verkefni að bregðast við kröfu um 1,5% aðhald. Þessar tillögur voru gerðar, það var reynt að vinna þetta eins hratt og mögulegt var. Ég geri mér grein fyrir því að auðvitað er þetta óþægilegt. Auðvitað er þetta erfitt en það þurfti að bregðast við og það var gert með þessum hætti.

Ég ítreka að það er lagt upp með það að námsframvindukrafan verði sú sama og var hér til 2007. Það er lagt upp með það að námsframvindukrafan verði sú sama og er annars staðar á Norðurlöndunum. Það er lagt upp með það að grunnframfærslan verði aukin þannig að námslánin verði hækkuð. Það er það sem skiptir máli. Það skiptir máli fyrir (Forseti hringir.) stúdentana að það verði gert.