142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir þann framgang sem málið hefur fengið í þinginu, fyrir þá ágætu vinnu sem unnin hefur verið í nefnd og málefnalegar umræður í þingsal um efni málsins. Varðandi framhaldið stendur ekkert annað til, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur farið yfir, en að eiga sem allra best samráð um útfærslu á einstökum leiðum. Það sem mestu skiptir er að hér er búið að koma í traustan farveg öllum helstu álitamálunum sem glíma þarf við vegna þess vanda sem enn stendur út af borðinu og m.a. er fjallað um í nýrri skýrslu OECD sem fram er komin. Þar er dregin upp sú mynd að staða heimilanna á Íslandi er býsna slæm í samanburði við önnur ríki, skuldastaða þeirra er býsna erfið. Það gefur okkur tilefni til þess að spýta í lófana og láta hendur standa fram úr ermum í öllum þessum málaflokkum.