142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

stofnun og tilgangur ríkisolíufélags.

10. mál
[12:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra veit er ég áhugamaður um olíu, um Drekasvæðið og líka um að við notfærum okkur þann rétt sem við höfum til hlutdeildar Noregsmegin við Jan Mayen-miðlínuna. Þess vegna er ég líka áhugamaður um hvenær og með hvaða hætti við setjum upp ríkisolíufyrirtæki.

Eins og hæstv. ráðherra man örugglega mælti ég fyrir tillögu, þegar ég var iðnaðarráðherra á sínum tíma, um að setja á stofn slíkt félag. Þá var það algerlega í gadda slegið samkvæmt þeirri tillögu, greinargerð og framsögu að félagið ætti að vera alfarið í eigu íslenska ríkisins, ekki mætti selja hlutina og sömuleiðis var sagt algerlega skýrt að félagið mætti ekki standa að vinnslu olíu. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að halda utan um hagsmuni íslenska ríkisins, og eins og ég sagði þá í framsöguræðu — ekki síst með tilliti til þess að á sínum tíma gerðu íslenskir sendimenn besta samning sem ég held að nokkru sinni hafi verið gerður fyrir hönd íslenska ríkisins árið 1981 þegar þeir öfluðu Íslandi fjórðungshlutdeildar Jan Mayen-megin miðlínunnar. Ísland mátti jafnframt bíða með ákvörðun þangað til byrjað væri að draga upp olíu þar á meðan Norðmenn þurfa hins vegar að taka ákvörðun um samsvarandi hlutdeild um leið og leit hefst okkar megin.

Á þeim tíma sagði ég einnig að rétt væri að bíða þangað til ljóst væri hver yrðu áform Noregs. Á síðasta ári tel ég að orðið hafi kaflaskipti. Þá lýsti norski olíumálaráðherrann því yfir að hann hygðist færa út norskar kvíar til þessa svæðis og einnig kom þá út fyrsta olíuskýrsla Norðmanna síðustu sjö árin og þar var allur fókus á því svæði. Þessi tímamót tel ég að leiði til þess að nú er tímabært að ráðast í þetta. Ég vil segja það alveg skýrt að ég er giska sáttur við stefnu nýju ríkisstjórnarinnar varðandi olíu- og Drekasvæðið, tek undir það sem þar segir að flestu leyti í stefnuyfirlýsingunni. Það er mjög í anda þeirra síðustu þriggja ríkisstjórna sem hafa starfað að þessum málum. Ég var iðnaðarráðherra í tveimur. Þess vegna vil ég brýna ráðherra til dáða og meginspurning mín er hvenær ríkisstjórnin hyggst setja þetta á stofn.

Einnig tel ég að miðað við orðanna hljóðan í stefnuyfirlýsingunni megi skilja hana þannig að ríkið ætli einnig að ráðast sjálft í olíuvinnslu. Það kemur mér á óvart. Ég tel að það sé óheimilt samkvæmt lögum nr. 166/2008 og þær aðrar spurningar varða ósk um skýringar hæstv. ráðherra á þeim orðum sem þar standa.