142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

framtíð Fisktækniskóla Íslands.

23. mál
[12:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mikilvægt mál. Menntun í sjávarútvegi hlýtur að vera ekki bara forgangsmál heldur eðli máls samkvæmt mikilvæg, því að um er að ræða grunn- og undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Afraksturinn af því menntastarfi sem þar er unnið — eftir því sem menntun þeirra sem þar starfa er meiri, því meiri vonir getum við gert okkur um arðsamari sjávarútveg. Þess vegna er það mikilvæg fyrirspurn sem hér er borin fram og ég vil því þakka hv. þm. Páli Vali Björnssyni fyrir fyrirspurnina og að vekja athygli á þessu máli.

Ég vil segja eitt áður en ég sný mér að hinni formlegu hlið svarsins að mér eru að nokkru kunn málefni fiskvinnsluskóla. Þannig var að fyrsta starf sem ég hafði með hendi í ráðuneyti eitt sumarið var að vinna einmitt að endurskipulagningu Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði, þ.e. námskrár og breytinga þar á. Mér eru þessi mál því nokkuð kunn og hef fylgst þokkalega með þróuninni. Ég vil segja að á þessu stigi hef ég ekki mótað neina sérstaka stefnu um málefni Fisktækniskóla Íslands. Ég vona að þingmaðurinn hafi umburðarlyndi gagnvart því. Ekki er langt síðan ríkisstjórnin tók við völdum og ég við mínu embætti. Ég hef því ekki sett algjörlega niður fyrir mér hvernig þetta verður.

Það er rétt sem hér hefur verið sagt að gerður var samningur í september árið 2011 á milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins annars vegar og Fisktækniskóla Íslands ehf. hins vegar um tilraunakennslu skólaárið 2011–2012 og 2012–2013. Eins og réttilega kom fram er samningurinn nú runninn út.

Fisktækniskólinn fékk viðurkenningu samkvæmt reglugerð nr. 426/2010 sem einkaskóli á framhaldsskólastigi og nær sú viðurkenning til sama tíma og fyrrnefndur samningur. Á fjárlögum fyrir 2013 er 8 millj. kr. fjárheimild til Fisktækniskólans en auk þess hefur skólinn fengið greitt fyrir kennslu nemenda af tímabundnum fjárheimildum verkefnisins Nám er vinnandi vegur. Í forsendum þess samnings, sem var nú að renna út, var gert ráð fyrir kennslu allt að 30 nemenda. Reynslan hefur verið sú að fjöldi nemenda hefur verið mun minni og á vorönn 2013 voru þeir 12.

Síðastliðinn vetur áttu sér stað viðræður milli ráðuneytisins og Fisktækniskólans um möguleika á framlengingu samnings við skólann. Ráðuneytið taldi sig ekki hafa fjárheimildir til að koma til móts við óskir Fisktækniskólans um fjárframlög og því náðist ekki samkomulag um nýjan samning. Það er staða málsins og sú staða sem ég fæ í arf að samningaviðræður síðastliðinn vetur báru ekki árangur.

Ég er líka mjög meðvitaður um að það er vandi fyrir skóla að afla og fá til sín nemendur ef menn geta ekki verið vissir um framtíðina. Ég tel það því ekki mjög afgerandi rök, þ.e. nemendafjöldinn, ef á sama tíma skóli getur borið fyrir sig að meiri fyrirsjáanleika vanti og öryggi í rekstur stofnunarinnar. Rétt er að hafa það í huga.

Síðan er spurt að því sérstaklega hvort menntamálaráðherra vilji „beita sér fyrir því að skólinn öðlist fastan sess sem sjálfstæður skóli á framhaldsskólastigi“. Þá vil ég segja í því samhengi að ekki er ljóst á þessu stigi hvort Fisktækniskólinn uppfylli skilyrði fyrir viðurkenningu sem sjálfstæður skóli á framhaldsskólastigi. Kannaðir hafa verið möguleikar, skilst mér, á samstarfi Fisktækniskólans um nám í fisktækni við aðrar menntastofnanir á Suðurnesjum sem og annars staðar á landinu. Mögulegt er að það geti skapað forsendur fyrir rekstri sem sjálfstæðar einingar eða sem hluti af annarri stofnun. En enn og aftur, ég vil ítreka að ég hef ekki mótað afgerandi eða sérstaka stefnu í málefnum þessa sérstaka skóla og því get ég einungis sagt: Ég geri mér grein fyrir að þessi samningur er runninn út. Samningar náðust ekki á liðnum vetri og það er því ekki mikill tími til stefnu til að bregðast við. Ég mun setjast yfir það í framhaldinu með embættismönnum mínum að fara nákvæmlega í gegnum það hvaða möguleika við höfum til að bregðast við þeirri stöðu sem er þar af leiðandi komin upp.