142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sköruglega ræðu. Þó að ég geti tekið undir nánast allar röksemdirnar sem hann flutti í sínu góða máli vil ég samt segja að þetta frumvarp, af hálfu ríkisstjórnarinnar, er ekki alvont. Í fyrsta lagi hefur komið fram alveg skýrt og er viðurkennt í sjálfu sér af hálfu minni hlutans í nefndaráliti að í ljós komu ákveðnir agnúar, tæknilegir, á útfærslu málsins af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er verið að setja undir það af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að þær breytingartillögur, og sérstaklega fyrsta breytingartillagan sem hv. þingmaður gerði að umræðuefni snemma í sinni ræðu, og lögð er fram af minni hlutanum, bætir með miklu sterkari hætti úr þeim annmörkum sem voru á áframhaldandi framkvæmd fyrri laga.

En það sem er jákvætt í þessu frumvarpi frá ríkisstjórninni, sem gerir það að verkum að ég segi að það sé alls ekki alslæmt, er auðvitað sú staðreynd að ríkisstjórnin leggur til að hið sérstaka veiðigjald á uppsjávarútgerðina sé hækkað. Að því marki get ég ekki annað en tekið undir þann part frumvarpsins. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér ekki sammála um það að þar er algjörlega farið miðað við þann mikla umframhagnað sem hefur komið fram vegna góðæris í þeim parti útgerðarinnar.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverjar efasemdir um að þær breytingartillögur sem minni hlutinn gerir, varðandi hækkun frítekjumarksins sem á að vernda minni eða litlar og meðalstórar útgerðir — er hv. þingmaður algjörlega sannfærður um að það dekki allar útgerðirnar í þeim útgerðarflokki?