142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú breyting sem hér er rædd, og hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir áðan í fjarveru hæstv. forsætisráðherra, er á ábyrgð og að frumkvæði stjórnarflokkanna. Við höfum á vettvangi formanna flokkanna rætt hvernig taka eigi á þeirri beiðni sem formenn stjórnarflokkanna settu fram um rýmra svigrúm til fjárlagagerðar. Það er ekki einhlítt hvernig taka skuli á slíku. Á sama tíma er í sjálfu sér, af hálfu þingmeirihlutans, verið að afþakka af tekjuhlið fjárlaga mögulegar tekjur, svo að skiptir rúmum tugi milljarða, og líka verið að efna til aukinna útgjalda. Þar af leiðandi er mjög skrýtið að fá beiðni um að vikið verði frá hefðbundnum samkomudegi Alþingis og þar með réttum skiladegi fjárlaga til að skapa betra ráðrúm fyrir fjárlagagerð.

Það varð niðurstaða okkar að horfast í augu við það að stjórnarmeirihlutinn hefur drjúgan meiri hluta hér á þinginu til að gera breytingu. Ég tel mikilvægt að þetta sé ekki varanleg breyting heldur einskiptisbreyting. Ég tel mikilvægt að almenna reglan um samkomudag Alþingis haldist og ekki sé búin til almenn regla um sérstakan samkomudag eftir kosningar á vori.

Ég vil líka nefna að þessi breyting hlýtur að hafa áhrif á starfið hér í haust. Það er búið að breyta verklagi við fjárlagagerðina, færa fram samkomudag þingsins og kveða á um að bæði fjárlög og tekjuöflunarfrumvörpin skuli koma fram á sama tíma til að styrkja og bæta verklagið við fjárlagagerðina og til að vinna gegn þeirri tilhneigingu, sem hefur verið allt of rík, að menn byrji á að leggja fram fjárlög og síðan sé það óþægilega erfitt verklag að menn vinni eftir hendinni og komi með ný og ný tekjuöflunarfrumvörp til þess jafnvel að bregðast við auknum útgjaldaþrýstingi milli umræðna við meðferð fjárlagafrumvarpsins. Ég tel mjög mikilvægt að við gætum okkar á því að við erum að setja mikinn þrýsting á haustþingið.

Ég mun ekki standa að þessari breytingu og mun ekki styðja hana en ég mun ekki greiða atkvæði gegn henni. Hún er á ábyrgð stjórnarflokkanna og það er þeirra að leggja hana fram og fylgja henni eftir. En ég ætlast til þess að menn horfi þá líka til þess að verið er að breyta verklaginu frá því sem við höfðum ætlað með því að taka þrjár vikur úr vinnu við jafnt fjárlög og tekjuöflunarfrumvörp sem ella hefðu verið til reiðu. Það þýðir að ríkisstjórnin verður að gera sér hógværar og eðlilegar væntingar og stilla í hóf kröfum sínum á haustþingið að öðru leyti.

Samkvæmt þingsköpum er sú skrýtna regla enn í gildi að það dugar mönnum að koma með frumvörp til 30. nóvember, þá eiga þeir að geta gengið út frá því að þau verði afgreidd fyrir jól. Ég tel einsýnt að ríkisstjórnin verði að sýna þinginu á móti þá virðingu að gera sér hógværar væntingar um að frumvörp sem eru lögð fram eftir fyrstu viku í nóvember eigi yfirhöfuð möguleika á að afgreiðast fyrir jól. Vegna þess aukna þrýstings sem verið er að setja á þingið í fjárlagavinnunni og þess skamma tíma sem verið er að skammta okkur verður ríkisstjórnin að vænta þess, ef hún leggur fram frumvörp 20. nóvember, að það sé ekki raunsætt að búast við að það náist að afgreiða þau fyrir jól.

Þetta vildi ég sagt hafa og ítreka það sem ég sagði áðan að ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessari tillögu. Hún er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna og þeir verða að tryggja atkvæði fyrir henni.