142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er að minnsta kosti maður að meiri að gangast þó við því að hann hafi gefið rangar upplýsingar um stöðu mála vegna þess að hann hélt áfram að klifa á þessu eftir að fjögurra mánaða uppgjörið kom fram. Bara svo að því sé til haga haldið þá voru tekjur ríkisins, ef ég man rétt, undir sem nemur 600 milljónum kr. þegar það lá fyrir. (Gripið fram í.) Það var ekki meira. Þannig að jafnvel þó — hvað með það? Er hann ekki sannferðug heimild um það? Ég hefði talið það.

Í öðru lagi vil ég líka þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að rifja upp að það var sú ríkisstjórn sem ég sat í sem reif sig þó upp úr þeirri vondu venju að vera svo síðbúinn í því að leggja fram fjárlagafrumvarpið og það er út af fyrir sig þakkarvert. Það var líka sú ríkisstjórn sem var við lýði sem í góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna, og reyndar að frumkvæði þingmanna Sjálfstæðisflokksins, vildi ganga lengra og vildi lögfesta það með þeim hætti sem gert var að nú í ár yrðu tekjuöflunarfrumvörpin lögð fram um leið.

Svo þætti mér líka gaman að heyra hæstv. fjármálaráðherra upplýsa það hversu oft á síðustu 22 árum hafi fjárlagafrumvarpið ekki verið lagt fram á þeim degi sem lögákvarðaður er. Jafnvel þó að það hafi verið svo að þegar kosningum lýkur hafi ríkisstjórnum ekki tekist að gera það þá velti ég því fyrir mér hvort sú staðreynd hafi verið hulin þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem börðust fyrir hinum nýja hætti. Það eru nú ekki nema tvö ár — eða síðla vors 2012 var það sem þessi lög voru samþykkt með það fyrir augum að taka gildi á þessu ári. Bíddu, var það þá þannig að (Forseti hringir.) hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu sér ekki grein fyrir því að það var að draga að kosningum? Þeir hljóta sem upphafsmenn málsins að hafa gert ráð fyrir þeim.