142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[22:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt sjálfsmynd sem hv. þingmaður dregur hér upp, að hann sé í hópi þeirra íhaldssamari í þessum þingsal þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá. Ég leyfi mér jafnvel að fullyrða að hann sé manna íhaldssamastur í þeim efnum. Það kemur okkur sem þekkjum hv. þingmann af daglegri umgengni og samstarfi auðvitað mjög á óvart, því endranær er hann frjálslyndastur í flestum öðrum efnum eins og við líka þekkjum.

Afstaða hv. þingmanns til stjórnarskrárbreytinga í gegnum tíðina hefur verið fróðleg, og er í sjálfu sér sjálfstætt rannsóknarefni. En fyrst við erum á annað borð að ræða þetta langar mig til þess að spyrja hv. þingmann um eitt, í tilefni af því að hann sagði að hann hefði slegið verulega af sínum kröfum. Í ljósi þess að það þarf samþykki 40% í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. ákvæðið er þannig að í reynd þurfa 80% atkvæðisbærra manna að taka þátt í kosningunni til að mál nái samþykki, hverjar hefðu verið ýtrustu kröfur að hans mati? Það væri fróðlegt að heyra það hjá hv. þingmanni.