142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég efast ekki um að mistök þingflokksformannanna og hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur séu ærleg. Það er hins vegar þannig að þegar orð eru látin falla í samstarfi verða þingmenn og þingflokksformenn á fundi sínum að geta treyst því að þau standi. Það var á grundvelli þeirra orða sem við þingmenn Bjartrar framtíðar studdum í gær breytingartillögu sem fól í sér fjölgun úr sjö upp í níu.

Í öllu þessu máli höfum við tekist á um hvort hér sé verið að auka pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu. Stjórnarliðar hafa fullvissað okkur um að svo sé ekki. Hvernig rímar það við þá staðreynd að hér ræsa menn út varaþingmenn hvaðanæva að af landinu til að geta komið í atkvæðagreiðslu til að tryggja það (Gripið fram í: Hjá Samfylkingunni?) að sex fulltrúar stjórnarflokkanna geti setið í stjórn Ríkisútvarpsins. Það gengur engan veginn upp. Þetta er sorglegt, því miður, og hefur slæm áhrif (Forseti hringir.) á starfsandann hér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)