142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Þegar hefur komið fram í andsvari hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar kjarni þeirra álitamála sem upp hafa komið í umræðunni í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Spurningin er nefnilega þessi: Er ljóst að markmiðið náist ekki með vægari hætti? Hv. þingmaður fullyrðir að svo sé, að ljóst sé að markmið frumvarpsins náist ekki með vægari hætti, þ.e. með úrtaksaðferðinni, en það er ekki rökstutt í nefndarálitinu.

Ég vil líka nefna í því sambandi, virðulegur forseti, að Persónuvernd fjallaði um málið á þremur tímapunktum. Í fyrsta lagi þegar upphaflegt frumvarp lá fyrir, síðan með breytingum og loks nú á lokametrunum þegar síðasta útgáfa frumvarpsins lá fyrir.

Þá segir Persónuvernd, með leyfi forseta:

„Fyrrgreind umsögn Persónuverndar, dags. 25. júní 2013, byggist m.a. á því að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins. Persónuvernd telur þá forsendu enn eiga við og áréttar því fyrri umsögn hvað það varðar.“

Það er að segja, það skortir á rökstuðning fyrir nauðsyn þessarar upplýsingasöfnunar, sem af ákvæðum frumvarpsins er ljóst að er mjög víðtæk, óþarflega víðtæk miðað við markmiðin, og þess vegna hefur ekki með fullnægjandi hætti verið dregið fram og rökstutt að almannahagsmunir séu nægilega ríkir til þess að farið sé í svo viðamikla upplýsingasöfnun sem hér er lögð til. Breytingar við vinnslu nefndarinnar undanfarnar virkur og daga hafa ekki dugað til þess að koma til móts við sjónarmið Persónuverndar. Það liggur fyrir í umsögn stofnunarinnar sjálfrar.